Fréttir

Undirritun viljayfirlýsingar um heilsueflingu á vinnustöðum

21.2.2019

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir forstjóri Vinnueftirlitsins, Alma D Möller landlæknir og Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK rituðu undir viljayfirlýsing um heilsueflingu á vinnustöðum undir lok morgunfundar um hamingju á vinnustöðum sem haldinn var á Grand hóteli fimmtudaginn 21. febrúar.

Í yfirlýsingunni segir að Embætti landlæknis, Vinnueftirlit ríkisins og VIRK Starfsendurhæfingarsjóður muni vinna saman að heilsueflingu og forvörnum á vinnustöðum, byggt á sömu hugmyndafræði og verkefnin um Heilsueflandi samfélag og Heilsueflandi leik-, grunn-, og framhaldsskóli.

Markmið verkefnisins er að stuðla að betri heilsu og vellíðan á vinnustöðum á Íslandi m.a. með því að móta viðmið fyrir heilsueflandi vinnustaði. Til að ná markmiðum verkefnisins verður litið til erlendra fyrirmynda í sambærilegum verkefnum sem hafa gefist vel sem og nýttur grunnur að heilsueflingu á vinnustöðum sem þegar er til staðar hér á landi.

Samstarfsaðilar stefna að því að eigi síðar en haustið 2019 verði farið formlega af stað með tilraunaverkefni 10 vinnustaða af mismunandi stærðum og gerðum sem innleiða viðmið heilsueflandi vinnustaða.

Undirritun_viljayfirlsyingar20190221