Fréttir

Tímabundið bann lagt við sölu ENOX ES100 rafhlaupahjóla

30.4.2020

Vinnueftirlitið hefur lagt tímabundið bann við sölu og afhendingu rafhlaupahjóla af gerðinni ENOX ES100 vegna ábendinga sem borist hafa stofnuninni um að hjólin kunni að vera gölluð en slík hjól hafa að minnsta kosti í tvígang gefið sig við notkun. Bannið gildir frá 29. apríl síðastliðnum í fjórar vikur, nema stofnunin ákveði annað.

Stofnunin hefur þegar hafið rannsókn á því hvort framangreind rafhlaupahjól uppfylli grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi í tengslum við hönnun og smíði véla. Áætlað er að niðurstaða rannsóknarinnar liggi fyrir undir lok næstu viku og mun stofnunin þá taka frekari ákvarðanir í málinu. Söluaðili hefur þegar tekið hjólin úr sölu.