Fréttir

Tilslökun á samkomubanni

28.4.2020

Aðlögun vinnustaða og verndun starfsfólks

- Þurfum áfram að gæta að okkur -

Nýjar reglur um samkomubann taka gildi 4. maí næstkomandi. Þá verða fjöldatakmörk þeirra sem mega koma saman hækkuð úr 20 manns í 50 sem þýðir að fleiri geta verið í sama rými á vinnustað. Þetta þýðir að fjöldi fólks sem unnið hefur að hluta eða öllu leyti heima getur snúið aftur til vinnu. Eins er stefnt að því að skólahald á leik- og grunnskólastigi fari aftur í eðlilegt horf. Þá verður heimilt að bjóða upp á ýmsa þjónustu sem var tímabundið aflögð s.s. sjúkraþjálfun, hárgreiðslu, nudd og snyrtimeðferðir auk þess sem tannlæknar geta hafið störf á ný. Söfn geta sömuleiðis opnað.

Þessar tilslakanir hafa í för með sér að margir vinnustaðir geta þurft að endurskoða áætlanir varðandi starfsmannahópinn þar sem fleirum er nú heimilt að vera saman í sama rými auk þess sem rýmri reglur geta verið um aðgengi að þjónustu. Engu að síður þarf að hafa í huga að þrátt fyrir að vel hafi tekist til við að hefta útbreiðslu COVID-19 faraldursins hér á landi þurfa allir að fara varlega og gæta fyllsta hreinlætis auk þess að virða tveggja metra regluna um bil á milli manna. Annars er hætta á því að faraldurinn blossi upp á ný.

Í dag, 28. apríl, er Alþjóðadagur vinnuverndar (e. World Day for Safety and Health at Work) en sjaldan hefur mætt jafn mikið á atvinnurekendum við að tryggja starfsfólki öruggar vinnuaðstæður eins og nú. Í því samhengi er vert að kynna sér eftirfarandi leiðbeiningar en við gerð þeirra var höfð hliðsjón af leiðbeiningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Vinnuverndarstofnunar Evrópu.

COVID-19_aftur_til_vinnu_1

Uppfærið áhættumatið

Við venjuleg vinnuskilyrði er greining og mat á áhættuþáttum grundvallarþáttur vinnuverndar. Atvinnurekendum er skylt að endurskoða áhættumatið þegar breytingar verða á vinnufyrirkomulagi eins og gerst hefur með tilkomu COVID-19 og er nú þýðingarmikið að áhættumat vinnustaða taki mið af viðbrögðum þeirra við COVID-19. Meðfylgjandi leiðbeiningar fyriráhættumat og forvarnir á vinnustað voru gefnar út af Vinnueftirlitinu í upphafi faraldursins. Mikið af því á enn þá við en annað getur þurft að endurskoða.

Mikilvægt að draga úr hættu á COVID-19 smiti á vinnustaðnum

Við endurskoðun á áhættumatinu þarf fyrst að meta áhættuna af tilslökuninni sem tekur gildi 4. maí fyrir hvern vinnustað og síðan að forgangsraða mikilvægustu áhættuþáttunum. Þetta þýðir að fyrsta skrefið er að útiloka áhættuna á smiti vegna COVID-19 og ef það er ekki gerlegt þá þarf að lágmarka smithættu starfsmanna. Hér að neðan eru nokkur dæmi um slíkar aðgerðir en hins vegar þarf að hafa í huga að þær eiga ekki allar við á öllum vinnustöðum eða um öll störf og fer það eftir eðli þeirra.


 • Metið þjónustustigið. Forgangsraðið því nauðsynlegasta. Það kann að vera mögulegt að fresta sumu á meðan smit eru ennþá fyrir hendi. Áfram þarf að fara varlega og því gott að veita þjónustu í gegnum fjarbúnað (síma eða myndsamtal) í stað þess að veita hana í eigin persónu þar sem því verður við komið.
 • Lagið vinnustaðinn, bæði aðstæður og skipulag, áfram að þeim takmörkunum sem settar eru með tilliti til þess að lágmarka smithættu af COVID-19. Íhugið að láta starfsfólk koma aftur á vinnustaðinn í áföngum hafi starfsfólkið til dæmis unnið að heiman. Verði breytingar á vinnutilhögun starfsmanna vegna breyttra reglna þarf að ganga úr skugga um að allir starfsmenn hafi verið upplýstir um breytingarnar, þar á meðal um nýjar verklagsreglur til að vinna eftir. Eins þurfa starfsmenn að vera upplýstir ef sömu verklagsreglur eiga að gilda áfram.

  COVID-19 Aftur til vinnu
 • Dragið eins og kostur er úr beinum samskiptum starfsmanna til dæmis á fundum eða í hléum. Metið þörf fyrir fundarhöld og þá hvort ekki sé unnt að halda fjarfundi. Einnig þarf að gæta þess að fólki sitji eða standi ekki of þétt á meðan tveggja metra reglan er í gildi.
 • Áfram þarf að draga eins og kostur er úr nánum samskiptum við viðskiptavini og á milli þeirra. Þetta má gera með samskiptum í gegnum net og síma, með snertilausum sendingum eða merkingum á gólfi við afgreiðsluborð. Enn fremur þarf að gæta þess að ekki myndist þvaga fólks fyrir utan verslanir þrátt fyrir að tilslakanir úr 20 manns í 50 hafi tekið gildi. Eins þarf að tryggja hæfilegt bil á milli fólks bæði innandyra og utan. 
  Sjá nánari leiðbeiningar um smitvarnir í verslunum.
 • Heimsendar vörur skulu áfram afhentar fyrir utan afhendingarstaðinn.
  Sjá nánari leiðbeiningar um vinnuvernd í heimsendingarþjónustu.
 • Áfram er mælt með að hugað sé sérstaklega vel að því hvernig mötuneyti eru skipulögð til að koma í veg fyrir smit vegna COVID-19. Halda þarf fjöldatakmörkunum hjá þeim sem deila mötuneyti, starfsmannarými eða eldhúsi og huga vel að snertiflötum í því sambandi. Það sama á við um salerni en gott getur verið að skipta salernum upp milli ákveðinna hópa starfsmanna til að forðast snertismit á milli hópa. Einnig er gott að halda áfram vaktaskiptum á starfsstöðvum enda þótt að fjölga megi í hverjum hópi miðað við nýjar reglur um fjöldatakmarkanir.
 • Handþvottur er nauðsynlegur eftir sem áður og því mikilvægt að starfsmenn hafi gott aðgengi að hreinlætisaðstöðu þar sem það getur þvegið sér með sápu og vatni. Einnig er þýðingarmikið að starfsstöðvar séu áfram þrifnar oftar en við venjulegar aðstæður og þá með sótthreinsandi efni. Á þetta sérstaklega við um afgreiðsluborð, hurðarhúna og önnur yfirborð sem fólk snertir reglulega. Einnig er mikilvægt að loftræsta svæðin vel ef mögulegt er.
 • Þar sem vatn og sápa er utan seilingar þarf handspritt áfram að vera starfsmönnum aðgengilegt og einnig viðskiptavinum. Til dæmis er unnt að setja brúsa með handspritti við afgreiðsluborð þar sem viðskiptavinir eru hvattir til að spritta hendur áður en til viðskipta kemur.
 • Notkun viðeigandi persónuhlífa á enn við þrátt fyrir tilslakanir á samkomubanni þannig að áfram þurfa að vera til reiðu allar nauðsynlegar persónuhlífar ásamt fullnægjandi upplýsingum um notkun á andlitsgrímum og hönskum.
 • Áfram er mikilvægt að brýna fyrir fólki að mæta ekki til vinnu ef það er með flensulík einkenni.
 • Skipuleggið sveigjanlega mætingu og vinnu fjarri vinnustað þegar þörf er á til að takmarka veru á vinnustað. Á þetta sérstaklega við um vinnustaði þar sem starfa fleiri en 50.

  - Góð ráð í fjarvinnu.
  - Góð ráð til stjórnenda í fjarvinnu .
  - Góð ráð um vinnuumhverfi og líkamsbeitingu við fjarvinnu .
  - Ráð fyrir þá sem vinna heima og sinna börnum .
 • Ráðfærið ykkur við starfsfólk. Þátttaka starfsfólks í vinnuverndarstarfi er lykillinn að góðum árangri á vinnustöðum. Þetta á einnig við þegar skref eru tekin á vinnustöðum í tengslum við COVID-19. Það ríkir óvissuástand og starfsfólk er eðlilega áhyggjufullt. Mikilvægt er að tala við starfsfólkið, öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði um fyrirhugaðar breytingar og um hvernig þessar tímabundnu ráðstafanir koma til með að virka. Þátttaka þeirra og annarra starfsmanna við gerð áhættumatsins og tillögur að ráðstöfunum um hvernig bregðast skuli við er mikilvægur hluti af góðum starfsháttum varðandi heilsu og öryggi á vinnustað.
 • Áætlið og dragið lærdóm af ástandinu til framtíðar. Það er mikilvægt að gera eða uppfæra neyðaráætlun vegna lokunar og opnunar á starfsemi í framtíðinni. Fyrirtæki sem hafa notað fjarvinnu í fyrsta skipti geta sömuleiðis íhugað að aðlaga hana að starfseminni hafi hún gefist vel. Reynslan sem fengin er í faraldrinum gæti leitt til þróunar fjarvinnustefnu eða endurskoðunar á þeirri stefnu sem fyrir er.

  COVID-19 Aftur til vinnu
 • Verið vel upplýst og athugið að nú þegar tilslakanir eru að fara að eiga sér stað gætu nánari leiðbeiningar verið gefnar út fyrir tilteknar starfsstéttir. Upplýsingamagnið í tengslum við COVID-19 getur verið yfirþyrmandi og það kann að vera erfitt að greina á milli áreiðanlegra upplýsinga og þeirra sem eru óljósar og villandi. Kannið ávallt uppruna upplýsinganna.

Eftirfarandi stofnanir veita meðal annarra greinagóðar upplýsingar í tengslum við COVID-19:

Þá má nálgast frekari leiðbeiningar og fræðsluefni tengt vinnustöðum og vinnuvernd á sérstökum COVID-19 vef Vinnueftiritsins

COVID-19_aftur_til_vinnu_4