Fréttir

Til mikils að vinna að tilkynna vinnuslys

2.7.2020

ByggingakraniAtvinnurekendum ber að tilkynna til Vinnueftirlitsins öll slys á vinnustað sem leiða til þess að starfsmaður verður óvinnufær í að minnst kosti einn dag auk dagsins sem slysið varð. Slys þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skal tilkynna Vinnueftirlitinu innan sólarhrings. Það sama á við ef starfsmaður lætur lífið við störf.

Forvarnargildi svo koma megi í veg fyrir frekari slys

Einn megintilgangur þess að tilkynna vinnuslys er að gera Vinnueftirlitinu kleift að fylgjast með framvindu þeirra á innlendum vinnumarkaði þannig að unnt sé að meta orsakir þeirra og bregðast við til að koma í veg fyrir að þau endurtaki sig. Það er til mikils að vinna því vinnuslys leiðir ekki aðeins af sér tjón fyrir þann sem fyrir því verður heldur líka atvinnurekandann og samfélagið í heild. Afleiðingarnar fyrir starfsmanninn eru flestum ljósar. Þær geta verið líkamlegar, andlegar og fjárhagslegar en tjón atvinnurekanda getur sömuleiðis orðið umtalsvert. Er því til mikils að vinna að Vinnueftirlitinu berist eins nákvæmar upplýsingar um umfang og eðli vinnuslysa eins og frekast er unnt.

Tilkynningarferlið aðgengilegra en áður

Vinnueftirlitið heldur skrá um tilkynningarskyld vinnuslys og rannsakar orsakir alvarlegra slysa til að koma í veg fyrir að þau endurtaki sig. Grundvöllur þess að stofnunin geti sinnt því hlutverki er að atvinnurekendur tilkynni þau slys sem verða.

Vinnueftirlitið tók í byrjun árs í notkun nýtt rafrænt slysaskráningarkerfi en samhliða því var hætt að taka við tilkynningum á pappír. Tilgangur þess er að gera tilkynningu vinnuslysa til Vinnueftirlitsins aðgengilegri ásamt því að stuðla að enn betri og nákvæmari skráningu vinnuslysa á Íslandi. Kerfið er einnig hluti af samræmdu slysaskráningarkerfi í Evrópu (e. European Statistics on Accidents at Work (ESAW)) en það tryggir samanburðarhæfni milli þjóða. Þannig verður auðveldara að bera vinnuslys á íslenskum vinnumarkaði saman við slys í öðrum Evrópuríkjum og gera ráðstafanir í samræmi við það.

Vinnueftirlitið hvetur atvinnurekendur til að skrá vinnuslys sem verða á vinnustöðum þeirra til að stuðla megi að öflugri vinnuvernd í landinu.