Fréttir

Streita á vinnustöðum

16.10.2015

Streita á vinnustöðum er þema vinnuverndarvikunnar árin 2014 og 2015. Hér er tilvísunin til óhóflegrar streitu en streita felur í sér viðbrögð okkar við álagi. Byggt á þeirri skilgreiningu þá felur streita ekki endilega í sér neikvæða hættu með neikvæðum afleiðingum, en í mæltu máli þá erum við öllu jöfnu að vísa til óhóflegrar streitu. 

Streita hefur í áranna rás vísað meir og meir til álags vegna tímaþröngar, skipulags og samskiptamála á vinnustöðum.  Þetta leiðir til þess að aðrir þættir sem kalla á streituviðbrögð hjá okkur fá minni athygli. Streita vegna viðvarandi slysahættu eða hættu af völdum efna eða eðlisfræðilegra þátta er ekki síður mikilvæg en streita sem er orsökuð af fyrrnefndum þáttum. Streita er til þess fallin að auka líkur á heilsutjóni af ýmsu tagi. Streita er áhættuþáttur fyrir sjúkdóma í hreyfi og stofkerfi, sem og geðsjúkdóma. Geðsjúkdómar koma margir hverjir fram snemma á ævinni, en sjúkdómar í hreyfi og stoðkerfi upp úr miðjum aldri. Það er ekki að undra að þessir tveir sjúkdóma flokkar séu ábyrgir fyrir tveimur þriðja til þremur fjórða hluta forfalla af vinnumarkaði í hinum vestræna heimi. 

Hvað gerum við í því. Við sem samfélag setjum tugum sinnum meira fé í að endurhæfa fólk vegna þessara sjúkdóma en við setjum í að koma í veg fyrir þá. Í grein í Forbes fyrir tveimur árum var vakin athygli á því að venjulegur starfsmaður í dag verður fyrir truflun sjö sinnum á klukkustund, og einbeiting hans við vinnu er trufluð í um rúmar tvær klukkustundir á hverjum degi. Þá eru stórir hópar starfsmanna að ganga í gegnum meiri háttar skipulagsbreytingar á sínum vinnustað með tilheyrandi áhyggjum og óvissu um framtíðina. 

Viðeigandi forgangsröðun verkefna sem á að ljúka á hverjum tíma er ætíð nauðsyn, þar sem tími starfsmanna er í eðli sínu ætíð takmarkaður. Til þess að ná þessu þarf að taka ákvörðun um hvaða verkefni eru í forgrunni en ekki síður að tryggja næði og vinnufrið til að ljúka verkefnunum. Símtöl, tölvupóstar, smáskilaboða, upplýsingar frá samfélagsmiðlun auk samskipta við samstarfsfólk og viðskiptavini þarf að vera markvisst og miða að því að við náum árangri í verkefnum okkar. Þetta kallar á að við sem starfsmenn verðum að forgangsraða hvernig við bregðumst við áreitunum. Þetta kallar á að stjórnendur séu skýrir með hver eru verkefni dagsins þannig að starfsmenn geti betur sett í forgang það sem þarf að gera og látið vera að nota tíma nú í verkefni sem á að vinna seinna.  

Streita og streitutengdir sjúkdómar valda miklu tjóni í samfélaginu. Fyrst og fremst er það vegna verri heilsu og vanlíðanar einstaklings. Í þessu samhengi er gott að minnast þess að óhófleg streita ef hún veldur ekki sjúkdómi þá er hún til þess fallinn að gera veikindin verri. 

Markmið vinnu, er vellíðan og velmegun; einstaklings, fjölskyldu, fyrirtækis og samfélags til handa. Vinna  sem leiðir til óhóflegrar streitu hjá þeim sem hana vinna og veldur þeim þannig heilsutjóni vinnu gegn þessum markmiðum.  Spurningar um hvort að vel sé tekið á þessu á vinnumarkaði brenna á okkur og erftt er að svara þeim. Í Evrópu, samkvæmt upplýsingum Evrópsku vinnuverndarstofnuninni, telur um helmingur starfsmanna vinnutengda streitu algenga á sínum vinnustað. Þá eru um 50 til 60% allra tapaðra vinnudaga  tengjanlegir við vinnutengda streitu.  Hér hjá okkur fer þeim fjölgandi sem fer á örorku litið yfir sl. 20 ár og þá sérlega þeim sem það þurfa að gera vegna geðsjúkdóma. 

Hvað segir þetta? Við þurfum að gera betur, númer eitt er betri stjórnun fyrirtækja, stjórnun sem hámarkar vellíðan og velmegun allra. Leggjum meiri áherslu á markvissa vinnuvernd. 

Kristinn Tómasson yfirlæknir Vinnueftirlitsins