Fréttir

Slysahættur á byggingarvinnustöðum

27.9.2017

Reglur um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð

FrettReglur um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, sem í gildi eru hér á landi, voru settar með hliðsjón af tilskipun sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu. Markmið reglnanna er að samræma öryggis- og heilbrigðisráðstafanir á slíkum vinnustöðum. Sérstaklega er fjallað um ábyrgð og skyldur þar sem fleiri en einn verktaki er að störfum. Skilgreint er hlutverk verkkaupa, verktaka, atvinnurekenda og samræmingaraðila öryggis- og heilbrigðisráðstafana bæði á undirbúnings- og framkvæmdar¬stigi verks.

Í reglunum er verkkaupa falið að sjá um að gerð sé öryggis- og heilbrigðisáætlun áður en byggingarsvæðið er skipulagt þar sem settar eru fram verklagsreglur er gilda eiga á byggingarvinnustaðnum sem í hlut á. Í áætluninni skal m.a. mælt fyrir um sérstakar ráðstafanir um verk sem hafa í för með sér hættur fyrir starfsmenn.

Tilgangur með öryggis- og heilbrigðisáætlun

Tilgangurinn með gerð öryggis- og heilbrigðisáætlunar er að tryggja öllum sem vinna  við bygginga- eða mannvirkjagerð gott starfsumhverfi. Áætlunin á að verða til þess að tryggja sem öruggasta framkvæmd vinnunnar. Áætlunin er einnig stjórntæki fyrir sameiginlegt starf að öryggismálum á vinnustaðnum. Gera skal öryggis- og heilbrigðisáætlun ef tveir eða fleiri atvinnurekendur / verktakar eru með fleiri en 10 manns í vinnu á byggingavinnusvæðinu.

Hver skal gera öryggis- og heilbrigðisáætlunina?

Verkkaupi ber að sjá um að gerð sé öryggis- heilbrigðisáætlun fyrir byggingarsvæðið. Á undirbúningsstigi verks skal hann skipa samræmingaraðila öryggis- og heilbrigðisráðstafana sem skal hafa umsjón með því að slík áætlun sé gerð.  Á framkvæmdarstigi verks skal samræmingaraðili m.a. sjá um að unnið sé eftir þeirri áætlun. Einnig skal hann sjá til þess að framkvæmdar verði nauðsynlegar breytingar á öryggis- og heilbrigðisáætluninni eftir því sem verkinu miðar áfram.

Hvenær á áætlunin að liggja fyrir?

Áður en vinna hefst skal gera öryggis- og heilbrigðisáætlun. Þegar útboð fer fram skal áætlunin tilbúin sem samfellt skjal. Hún á að taka mið af aðstæðum á vinnustaðnum, m.a. skal greina þær hættur sem kunna að vera  til staðar með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og hvaða forvarnaráðstafanir eru gerðar. Áætlunin skal liggja fyrir í heild áður en vinnan hefst.

Áætlunin skal vera öllum aðgengileg

Öryggis- og heilbrigðisáætlunin á að vera öllum á vinnustaðnum aðgengileg, þ.e. geymd á stað sem allir hafa aðgang að í vinnutíma, t.d. í aðstöðu þar sem öryggisfundir eru haldnir. Áætlunin skal sett fram sem samfellt skjal, sem má t.d. geyma í öryggismöppu þar sem allar upplýsingarnar er að finna.

Tímaáætlun

Með hliðsjón af hönnunargögnum skal áætlunin geyma frekari útfærslu sem lýsir því hvernig einstök verkefni og verkhlutar eru skipulögð með tilliti til hvers annars. Í útfærslunni felst m.a. að greint er hvenær hinir ýmsu verktakar vinna að verkefnum á byggingavinnustaðnum og hve mikill tími er ætlaður til verksins. Tekið skal skýrt fram hvar og hvenær vinnunni fylgir sérstök hætta.

Lýsing á aðstæðum

Í áætlunni skal lýsa öllum aðstæðum sem þýðingu hafa fyrir öryggi og heilbrigði svo að tryggt sé að hinir ýmsu atvinnurekendur/verktakar geti unnið að verkefnum sínum í samræmi við kröfur vinnuverndarlaganna. Áætlunin skal gera kröfu um skýra afmörkun, m.a. á því hver hefur það hlutverk á hverjum tíma að setja hinar ýmsu öryggisráðstafanir í áætluninni upp og halda þeim við.

Aðstæður í upphafi

Í áætluninni skal með hliðsjón af því sem gefið er upp af hönnuðum/ráðgjöfum lýsa ráðstöfunum sem gripið er til í öryggisskyni, þ. á. m. merkingum á:hvar leiðslur liggja í jörðu, og t.d. staðsetningu háspennulína.hvar kunna að vera hættusvæði.

Sameiginlegar aðgerðir

Vísað skal til dæma, um hvað skal að jafnaði vera með í áætluninni undir liðnum: Hver gerir hvað, hvenær og gæðakröfur. Sem dæmi skal nefnt, hvaða kröfur eru gerðar um byggingarkrana, vinnupalla, hvenær á að setja þá upp og hver á að gera það. Tryggja skal að vinnupallarnir fullnægi kröfum allra þeirra aðila sem ætlað er að nota þá við störf sín. Þeir verða því að henta fyrir alla vinnu sem framkvæma á frá þeim.

Heildstæð samræming allra verktaka á framkvæmdarstigi

Til að koma í veg fyrir slys og óhöpp er afar mikilvægt að unnið sé eftir öryggis- og heilbrigðisáætlun. Skipaður sé samræmingaraðili til að tryggja öryggi allra starfsmanna sem koma að framkvæmdinni með hliðsjón af framgangi einstakra verkþátta. Þá er mikilvægt að samræmingaraðili hafi fulla yfirsýn yfir alla mikilvæga verkþætti sem unnir eru af mismunandi verktökum og geti stöðvað vinnu og heimilað eftir því sem þurfa þykir. Ef öryggisstjóri er á byggingarvinnustað getur hann gengt hlutverki samræmingaraðila. 
Áður en verkþættir eru framkvæmdir skal liggja fyrir áhættumat og áætlun um forvarnir til að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna, sjá reglugerð nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum. Mikilvægt er að starfsmönnum hafi verið kynnt áhættumatið á tungumáli sem þeir skilja og því fylgt eftir.
Hægt er að kynna sér betur helstu skyldur aðila og gerð öryggis- og heilbrigðisáætlunar fyrir byggingarstað í fræðslu- og leiðbeiningariti um það efni .