Fréttir

Skráning vinnuslysa enn aðgengilegri

7.10.2020

Nýtt og aðgengilegra slysaskráningakerfi Vinnueftirlitsins fór í loftið í upphafi árs. Nú hefur verið opnað á viðbót við kerfið sem gerir skráningu vinnuslysa enn auðveldari og dregur úr tvíverknaði.

Tilgangur nýs slysaskráningarkerfis, sem fór í loftið 1. janúar síðastliðinn, var að auðvelda atvinnurekendum að tilkynna vinnuslys til Vinnueftirlitsins ásamt því að stuðla að betri og nákvæmari skráningu vinnuslysa á Íslandi. Því til viðbótar hefur nú opnast sá möguleiki að senda inn tilkynningar um vinnuslys í gegnum vefþjónustu en hingað til hefur það aðeins verið hægt í gegnum mínar síður Vinnueftirlitsins. Gagnast það einkum fyrirtækjum sem eru að tilkynna mikinn fjölda slysa á ári og eru nú þegar að skrá atburði í eigin tölvukerfi. Með tengingu við vefþjónustuna fer skráningin samhliða til Vinnueftirlitsins sem kemur í veg fyrir tvíverknað hjá starfsfólki við skráningu slysa. Það dregur jafnframt úr líkum á því að villur slæðist með í gagnainnslætti og afritun á milli kerfa.

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér vefþjónustuna geta haft samband í gegnum vinnueftirlit@ver.is til að fá nánari upplýsingar.