Fréttir

Samþykkjum aldrei kynferðislegt áreiti og ofbeldi

17.10.2017

Ein ljótasta birtingarmynd áreitis er kynferðislegt áreiti. Því miður er það svo að slík hegðun fær alltof oft að líðast án þess að þolendur eða þeir sem verða vitni að slíku rjúfi þögnina og bregðist við. Hluti þess vanda er eflaust sú sálarangist sem bætist ofan á málið þegar þolandi þarf að takast á við það óréttlæti sem hann hefur orðið fyrir.

Vitni geta einnig veigrað sér við því að stíga fram í ótta við að dragast inn í mál eða verða fyrir öðrum skaða. Í sumum tilfellum er framburður þolanda og vitna um málsatvik óljós sem torveldar málsmeðferð, því er brýnt að vandað sé til verka. Ein birtingarmynd þeirrar hræðslu sem oft fylgir í kjölfar áreitis sést þegar einn þolandi þorir að stíga fram og í kjölfarið fylgja aðrir á eftir, og stundum heill hópur. Þolendur finna þá fyrir kjarki og styrk frá þeim sem fyrstu skrefin tekur og þá opnast flóðgáttir.

Rannsóknir sýna að allra besta leiðin til þess að koma í veg fyrir óviðeigandi hegðun sem þessa snýr að forvörnum. Vinnustaðir eiga samkvæmt lögum að gera áhættumat fyrir félagslega þætti og móta sér áætlun um hvernig standa skuli að málum, komi slík atvik upp. Gera þarf öllum starfsmönnum og ekki síður yfirmönnum það ljóst að óheimilt sé að ganga yfir persónuleg mörk og áreita starfsfólk kynferðislega eða á annan hátt. Vinnustaðir þurfa að sýna í verki hvar forvarnir gegn félagslegum vandamálum liggja og verður viðbragðsáætlun því að innihalda útskýringu á því hver farvegur málanna verður. Ekki er síður þarft að áætlun innihaldi leiðbeiningar um hvernig vinnuaðstæðum verði háttað meðan á meðferð máls stendur og hvernig brugðist verði við svo að óviðeigandi hegðun endurtaki sig ekki. Góðir stjórnunarhættir tryggja það að starfsfólk og stjórnendur lendi síður í málum af þessum toga.

Vinnueftirlitið hefur samkvæmt lögum eftirlit með sálfélagslegum þáttum á vinnustöðum hér á landi en færst hefur í vöxt að fyrirtæki leiti til viðurkenndra þjónustuaðila við gerð áhættumats um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum.

Á heimasíðu Vinnueftirlitsins má nálgast upplýsingar sem nýtast við gerð áhættumats auk þess sem þar má finna reglugerðir og lög um skyldur atvinnurekanda og starfsmanna. 

Jóhann Friðrik Friðriksson, sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu