Fréttir

Öryggi við vélar

2.11.2017

Vinnuslys og orsakir áverka

Tilkynna á öll vinnuslys til Vinnueftirlitsins þar sem fjarvera vegna slyss er einn dagur umfram slysadag eða líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni.

Á tilkynningaeyðublaði Vinnueftirlitsins er dálkur þar sem skilgreina á orsök áverka.

Orsök áverka er skipt í tíu flokka:

  Orsök áverka / Flokkar 
 1  Högg
 2  Klemmdist, festist í vél
 3  Fall á jafnsléttu
 4  Fall af hærri stað
 5  Hvass, beittur hlutur
 6  Ofraun á líkama
 7  Hiti eða kuldi
 8  Rafstraumur, rafblossi
 9  Hættuleg efni og efnasambönd
 10  Annað

Algengasta orsök áverka við vinnuslys á Íslandi síðustu 10 ár er (3) Fall á jafnsléttu u.þ.b. 23 prósent. Næstu flokkar eru (4) Fall af hærri stað og (2) Klemmdist, festist í vél með að jafnaði tíu prósent slysa hvor.

Hér fyrir neðan eru teknar saman tölulegar upplýsingar um orsök áverka frá aldamótum fyrir flokkinn (2) Klemmdist, festist í vél.

Klemmdist-eda-festist-i-vel

Eins og sjá má á súluritinu þá klemmast eða festast í vél árlega 126 - 253 manns. Mörg þessara slysa í og við vélar eru mjög alvarleg, beinbrot eða missir líkamshluta.

Í súluritinu má sjá að þessi slys voru algengust við lok uppsveiflunnar árin 2005 – 2007.  Árið 2007 var ástandið verst, þá varð, á hverjum virkum vinnudegi, vinnuslys þar sem einstaklingur klemmdist eða festist í vél. Á kreppuárunum fækkaði þessum slysum töluvert en þau hafa verið tæplega 200 á ári síðustu ár.

Þessi slys eru þess eðlis að það er auðveldara að koma í veg fyrir þau en flest önnur slys.

Ef vélar og tæki uppfylla þær öryggiskröfur sem farið er fram á í dag er nær útilokað að það verði slys vegna þeirra.

Skýrar reglur um öryggi við vélar

Alltof oft mætir Vinnueftirlitið því viðhorfi og misskilningi að viðkomandi starfsmaður sem klemmdist í vél hefði átt að vita betur en að fara með líkamshluta inn á hættusvæði vélarinnar.  Það á ekki að vera hægt að komast inn á hættusvæði véla meðan þær eru í gangi.

Allir eiga það til að gleyma sér eða gera mistök einhvern tímann t.d. vegna álags eða þreytu. Starfsfólk á ekki að eiga í hættu á að klemma sig eða missa líkamshluta vegna augnabliks gáleysis.

Í reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja kemur fram að „þegar hætta er á viðkomu við tækjahluta á hreyfingu þannig að slys getur hlotist af, skulu hafðar á þeim hlífar eða annar viðeigandi búnaður sem hindrar að unnt sé að komast á hættusvæði eða stöðvar hreyfingu þeirra hluta áður en á hættusvæði er komið“.

Það er reynsla Vinnueftirlitsins að í flestum slysum við vélar og tæki er ekki viðeigandi öryggisbúnaður til staðar. Vélar eru stundum það gamlar að aldrei hefur verið á þeim sá öryggisbúnaður sem krafist er í dag. Því miður hefur öryggisbúnaður oft verið fjarlægður. Í verstu tilvikum er öryggisbúnaður gerður óvirkur og vél „plötuð“ t.d. með því að tengja fram hjá öryggisbúnaði. Bæði nýjar og gamlar vélar þurfa að uppfylla lágmarkskröfur um öryggi.

Komið í veg fyrir ótímabæra gangsetningu véla. Læsa – merkja – prófa/staðfesta

Nýlega hafa orðið hryllileg slys á Íslandi við vélbúnað þar sem verið var að þrífa eða sinna viðhaldi. Í öllum iðnaði á Íslandi er mikið af sjálfvirkum búnaði og öðrum vélbúnaði sem þarf bæði að þrífa og halda við. Af slíkum búnaði getur stafað mikil hætta, sérstaklega ef búnaðurinn getur farið sjálfvirkt í gang.

Í reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja eru skýrar almennar lágmarkskröfur um vélar og tæki á vinnustöðum. Gerðar eru kröfur um öruggan stjórnbúnað, hvernig hann eigi að líta út, hvar eigi að staðsetja hann og hvernig hann á að virka.

Til að koma í veg fyrir ótímabæra gangsetningu véla hafa mörg fyrirtæki komið sér upp kerfi. Stóriðjan á Íslandi er öll með slík kerfi. Það er útfærslumunur á milli þessara kerfa en tilgangurinn er alltaf að koma í veg fyrir ótímabæra gangsetningu og slys.

Í bæklingi frá Elkem, sem þeir kalla Læsa – Merkja - Prófa , kemur fram að starfsmaður fyrirtækisins sem vinnur við vél skal læsa henni með sínum persónulega lás. Lásinn skal merktur nafni, símanúmeri og fyrirtæki.

Óskari Erni Péturssyni frá verkfræðistofunni Mannviti fjallaði um áþekkt kerfi í fyrirlestri um kerfið „Einangrun orku – Læsa – Merkja – Staðfesta“.

Svona kerfi ættu að vera á mörgum vinnustöðum t.d. öllum bræðslum, stóriðju, við ýmsa rafmagnsvinnu, plastiðnaði, fiskvinnslu, sælgætisgerð, sláturiðnaði og öðrum matvælaiðnaði.