Fréttir

Öryggi og vinnuvernd á byggingarvinnustöðum

25.7.2017

Öryggismál í byggingariðnaðiFallslys á byggingarvinnustöðum eru nokkuð algeng. Samkvæmt upplýsingum frá Evrópusambandinu eru fallslys úr hærri hæð algengustu slysin á byggingarvinnustöðum, á það einnig við um íslenska byggingarvinnustaði.

Fram kemur að um er að ræða fall af vinnupöllum, úr stigum sem ekki hafa verið festir á öruggan hátt eða eru lélegir, fall af þökum eða svæðum þar sem handrið eru ófullnægjandi, viðeigandi öryggisbúnaður hefur ekki verið notaður.

Fallslys á jafnsléttu eru einnig algeng á byggingarvinnusvæðum, þar sem umgengni er ekki nægjanlega góð og fólk er að falla um verkfæri, rusl og fleira. Hægt er að koma í veg fyrir mörg af þessum slysum með markvissri öryggis- og vinnuverndarstefnu við undirbúning framkvæmda og á framkvæmdatímanum.

Í útboðs- og samningsskilmálum kemur oft fram ákvæði um öryggi á vinnustöðum en það dugar skammt ef málum er ekki fylgt eftir á vinnusvæðum. Verkkaupi við byggingar- og mannvirkjagerð ber ábyrgð, samkvæmt reglum nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, á því að móta öryggisráðstafanir og verklagsreglur á sameiginlegum svæðum. Hann ber ábyrgð á því að samræma vinnuverndarstarfið á vinnusvæðinu. Í leiðbeiningum á heimasíðu Vinnueftirlitsins er fræðslurit sem gefur skýrar leiðbeiningar um hvernig skuli staðið að öryggisstarfi á byggingarvinnustöðum, en þar kemur m.a. fram eftirfarandi atriði sem mikilvægt er að uppfylla til að framkvæmd takist vel frá byrjun verks:

Undirbúningsstig verks

  1. Verkkaupa ber að skipa samræmingaraðila öryggis- og heilbrigðismála á undirbúningsstigi verks.
  2. Verkkaupi skal sjá til þess að gerð sé öryggis- og heilbrigðisáætlun áður en byggingarframkvæmdir hefjast.
  3. Það er mikilvægt hlutverk verkkaupa að sjá til þess að í útboðsgögnum séu kröfur sem verktakar þurfa að uppfylla varðandi aðbúnað og öryggismál á byggingarvinnustað skilgreindar á fullnægjandi hátt.

Framkvæmdarstig verks

  1. Verkkaupa ber að skipa eða sjá til þess að samræmingaraðili á framkvæmdarstigi verks sé skipaður áður en byggingarstarfsemi hefst.
  2. Verkkaupi skal áður en verk hefst tilkynna Vinnueftirlitinu um nýja byggingarframkvæmd og stærri viðhaldsverkefni á sérstöku eyðublaði sem aðgengilegt er á heimasíðu stofnunarinnar .
  3. Samræmingaraðili skal sjá til þess að unnið sé eftir öryggis- og heilbrigðisáætlun frá því að verk hefst og að áætlunin sé uppfærð eftir því sem verkinu vindur fram; ábyrgð á því að það sé gert er þó ætíð á höndum verkkaupa og verktaka.
  4. Verktakar skulu tryggja öryggi og heilsu starfsmanna á byggingarvinnustað í samræmi við lög og reglur og taka mið af leiðbeiningum samræmingaraðila.

Verktakar og undirverktaka sem taka að sér verk á framkvæmdasvæðum bera ábyrgð á öryggi sinna starfsmanna og að fara eftir þeim viðmiðum og reglum sem gilda fyrir viðkomandi vinnusvæðið.

Til að árangur náist í því að fyrirbyggja slys og óhöpp þurfa allir aðilar sem vinna á sama svæði að vera vakandi fyrir hættum í vinnuumhverfinu, virða þau viðmið sem sett hafa verið á vinnustaðnum og fara þannig eftir öryggis- og heilbrigðisáætlun viðkomandi vinnusvæðis.