Fréttir

Opnun vinnustaðar eftir tímabundna lokun

4.5.2020

KlippingÞegar hertar reglur um samkomubann tóku gildi 24. mars síðastliðinn var ýmis starfsemi, sem krafðist mikillar nálægðar milli fólks, gerð óheimil. Þar undir féllu meðal annars allar hársnyrtistofur, snyrtistofur, nuddstofur og önnur sambærileg starfsemi. Við tilslökun á samkomubanni sem tekur gildi í dag 4. maí verður þessum starfsgreinum aftur heimilt að veita þjónustu sína. Ef þinn vinnustaður hefur þurft að loka tímabundið vegna COVID-19 er mælt með að eftirfarandi atriði verði skoðuð sérstaklega en þau taka mið af aðstæðum og heilsu og öryggi starfsmanna:

  • Uppfærið áhættumatið sbr. meðfylgjandi leiðbeiningar.
  • Breytið skipulagi vinnustaðarins og stýringu verkefna þannig að hætta á smiti vegna COVID-19 verði sem minnst áður en starfsemin hefst á ný og áður en allt starfsfólk snýr aftur til vinnu. Til að aðlagast nýju fyrirkomulagi mætti skoða hvort gott sé að hefja vinnu í áföngum. Upplýsið starfsfólk um fyrirhugaðar breytingar ef við á, leiðbeinið því og þjálfið í nýju verklagi.
  • Verndið starfsfólk í sérstökum áhættuhópum, þar á meðal starfsmenn sem eru yfir 60 ára og þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. Nánar má lesa um áhættuhópa á Covid.is. Mikilvægt er að ræða sérstaklega við það starfsfólk sem er í áhættuhópi og sammælast um tímabundna aðlögun vegna breytinga á skipulagi.
  • Hugleiðið að styðja sérstaklega við starfsfólk sem gæti verið að upplifa erfiða tíma vegna heilsufarsáhyggna, fjárhagsáhyggna eða streitu. Gott getur verið að bjóða upp á einstaklingssamtöl til að ræða verkefni, aðstöðu og líðan.
  • Starfsfólk gæti verið áhyggjufullt vegna aukinnar hættu á smiti á vinnustaðnum og gæti því ekki viljað snúa aftur til vinnu. Sýnið áhyggjum þess skilning og veitið upplýsingar um þær ráðstafanir sem grípa á til og þann stuðning sem því stendur til boða.

Réttur til að neita að veita þjónustu

Þeir sem vinna störf sem krefjast snertingar eða mikillar nálægðar við viðskiptavini til dæmis hársnyrtar, snyrtifræðingar og nuddarar eiga rétt á að neita að veita þjónustu ef viðskiptavinurinn sýnir einkenni þess að bera kórónuveiruna. Á það til dæmis við ef hann er með þurran hósta, hita eða höfuðverk.

Starfsmaður hefur rétt á að neita að vinna óörugg störf og ef atvinnurekandi fer fram á það að starfsmaður sinni veikum viðskiptavini ætti að ræða það innan vinnustaðarins til dæmis við öryggistrúnaðarmann, öryggisvörð eða aðra stjórnendur á vinnustaðnum. Ef starfsmaður telur sig eftir sem áður vera í óöruggum aðstæðum er hægt að hafa samband við Vinnueftirlitið.

Réttur til að nota persónuhlífar

Samkvæmt leiðbeiningum Embættis landlæknis eiga þeir sem sem eru í mikilli nálægð við viðskiptavini að nota persónuhlífar við vinnu, s.s. andlitsgrímu og hanska. Atvinnurekandinn á að útvega starfsfólki þessar hlífar. Ef því er meinað að nota þær skal benda á mikilvægi þess við atvinnurekanda og hafa samband við Vinnueftirlitið.

Réttur til nálægðartakmörkunar (tveggja metra reglan)

Heilbrigðisyfirvöld hafa fyrirskipað að á vinnustöðum skuli tryggja tvo metra á milli einstaklinga til að draga úr hættu á smiti. Þar sem hársnyrtar, snyrtifræðingar og sambærilegar starfsgreinar þurfa jafnan að snerta viðskiptavini er erfitt að koma því við en þrátt fyrir það er hægt að halda ákveðinni fjarlægð sem gæti til dæmis falist í eftirfarandi:

  • Haldið ríflegri fjarlægð á milli stóla/starfsstöðva þannig að viðskiptavinir og starfsfólk séu ekki nálægt hvert öðru. Hægt er til dæmis að nota einungis annan hvern stól/starfsstöð.
  • Takið matarhlé utan vinnustaðar en ekki í bakherbergi eða mötuneyti.
  • Sótthreinsið vinnustöðvar eftir hvern viðskiptavin og sápuþvoið hendur reglulega.
  • Tryggið að handspritt sé til staðar á áberandi stöðum fyrir starfsfólk og viðskiptavini.