Fréttir

Nýtt slysaskráningarkerfi hjá Vinnueftirlitinu

2.1.2020

Spítalakross - VinnuslysVinnueftirlitið hefur tekið í notkun nýtt slysaskráningarkerfi fyrir slys sem gerast 1. janúar 2020 eða síðar. Tilgangur hins nýja kerfis er að gera tilkynningu vinnuslysa til Vinnueftirlitsins aðgengilegri fyrir atvinnurekendur ásamt því að stuðla að betri og nákvæmari skráningu vinnuslysa á Íslandi. Leiðir það aftur til bættra tölfræðiupplýsinga um vinnuslys hér á landi.

Atvinnurekendur skrá sig inn í nýtt kerfi með rafrænum skilríkjum eða Íslykli og eru leiddir áfram í gegnum notendavænt viðmót þar sem farið er yfir skráningu á nauðsynlegum upplýsingum í tengslum við hlutaðeigandi slys. Nálgast má skráningu í kerfið á vef Vinnueftirlitsins https://minarsidur.ver.is/ .

Kerfið er hluti af samræmdu slysaskráningarkerfi í Evrópu (e. European Statistics on Accidents at Work (ESAW)). Atvinnurekendur eru skráðir samkvæmt ÍSAT2008 sem er atvinnugreinaflokkun á Íslandi og byggist á atvinnugreinaflokkun Evrópusambandsins, NACE Rev. 2. Samræmt flokkunarkerfi tryggir samanburðarhæfni milli þjóða og verður þannig auðveldara að bera vinnuslys á íslenskum vinnumarkaði saman við slys í öðrum Evrópuríkjum.

Vinnueftirlitið áréttar þá skyldu atvinnurekanda að tilkynna til stofnunarinnar innan viku öll slys þar sem starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Slys þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skal tilkynna Vinnueftirlitinu eigi síðar en innan sólarhrings.

Slys sem urðu fyrir 1. janúar 2020 og á eftir að tilkynna um skulu áfram tilkynnt rafrænt í eldra slysaskráningarkerfi sem einnig er aðgengilegt á vef Vinnueftirlitsins https://minarsidur.ver.is/.