Fréttir
  • Sættum okkur ekki við einelti, áreitni, ofbeldi

Sættum okkur ekki við einelti, áreitni og ofbeldi

1.3.2021

Uppfærð útgáfa af leiðbeiningabæklingnum „ Sættum okkur ekki við einelti, áreitni, ofbeldi “ er komin út á heimasíðu Vinnueftirlitsins. Bæklingurinn er hugsaður fyrir stjórnendur, mannauðsráðgjafa, vinnuverndarfulltrúa og aðra sem vilja kynna sér efnið. Honum er einkum ætlað að leiðbeina og styðja stjórnendur í að fyrirbyggja hvers kyns óviðeigandi hegðun á vinnustað en auk þess eru gefnar leiðbeiningar um hvernig skuli bregðast við eigi hún sér stað.

Bæklingurinn hefur að geyma skilgreiningar á einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi og er fjallað um birtingarmyndir, orsakaþætti og afleiðingar. Þar er jafnframt að finna hagnýtar leiðbeiningar fyrir stjórnendur og annað starfsfólk sem og gátlista við gerð viðbragðsáætlunar.

Vinnueftirlitið hvetur stjórnendur til að skoða þessi mál vel og taka virkan þátt í baráttunni gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Á það ekki síst við núna þegar starfsmenn fara í auknum mæli að mæta á starfsstöðvar sínar á fjölmennari vinnustöðum þegar fjöldatakmarkanir vegna COVID-19 rýmka smám saman. Ábyrgð stjórnenda er rík þegar kemur að líðan starfsmanna á vinnustöðum en vert er að minna á að velferð starfsmanna skilar sér ávallt til baka til fyrirtækjanna í virðisaukandi vinnuframlagi þeirra. Þannig eykur það hag fyrirtækjanna sjálfra þegar stjórnendur láta sig velferð starfsmanna sinna varða sem aftur skilar sér í góðum starfsanda og ánægðu starfsfólki.