Fréttir

Ný reglugerð um röraverkpalla

30.10.2018

Reglugerð nr. 729/2018 um röraverkpalla hefur tekið gildi hér á landi. Reglugerðin kemur í staðinn fyrir reglur nr. 331/1989 um röraverkpalla sem hafa verið felldar úr gildi.
RöraverkpallurReglugerðin gildir um markaðsetningu, notkun, uppsetningu og niðurtöku röraverkpalla. Markmið reglugerðarinnar er að stuðla að öryggi starfsmanna og annarra í tengslum við notkun röraverkpalla til að koma í veg fyrir að slys eigi sér stað.

Helstu nýmæli:

Markaðssetning – leiðbeiningar – staðlar - handrið

 • Röraverkpallar sem settir eru á markað hér á landi skulu hannaðir og smíðaðir samkvæmt evrópskum stöðlum s.s. ÍST EN 12811, ÍST EN 12810 og ÍST EN 1298.
 • Sá sem setur á markað röraverkpall hérlendis skal sjá til þess að upphaflegar leiðbeiningar framleiðanda um notkun viðkomandi röraverkpalls fylgi með pallinum.
 • Sá sem setur á markað röraverkpall hérlendis skal auk þess sjá til þess að fyrir hendi sé íslensk þýðing á upphaflegum leiðbeiningum framleiðenda um notkun viðkomandi röraverkpalls.
 • Handrið og fallvarnir skulu uppfylla kröfur staðalsins ÍST EN 12811. Þar kemur m.a. fram að bil milli handlista og hnélista - og hnélista og fótlista má ekki vera meira en sem nemur 470 mm. Hæð á fótlista skal vera a.m.k. 150 mm.

Önnur nýmæli sem taka gildi 1. desember 2018:

Þjálfun – námskeið - merkingar

 • Atvinnurekandi skal sjá um að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun við að framkvæma störf sín á þann hátt að ekki stafi hætta af. Starfsmenn skulu m.a. fá þjálfun í uppsetningu og niðurtöku röraverkpalla í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.
 • Þeir sem stjórna framkvæmd eða framkvæma uppsetningu og niðurtöku röraverkpalla verða því að hafa mjög góða þekkingu á ákvæðum reglugerðar um röraverkpalla.
 • Þrír fulltrúar frá Vinnueftirlitinu, ASÍ og SA skulu skipa verkefnaráð sem hefur það hlutverk að semja námsskrá fyrir þá sem stjórna framkvæmd við eða framkvæma uppsetningu og niðurrif röraverkpalla.
 • Allir uppsettir verkpallar skulu vera merktir með eftirfarandi hætti:
 1. Upplýsingum með hver sé fyrirhuguð notkun röraverkpallsins, svo sem gluggaviðgerðir, múrvinna, málningarvinna o.s.frv.
 2. Upplýsingar um álagsflokk skv. staðli ÍST EN 12811.
 3. Upplýsingum um hvenær viðkomandi röraverkpallur var settur upp
 4. Upplýsingum um þann einstakling sem stjórnaði framkvæmdinni við uppsetningu viðkomandi röraverkpalls ásamt undirritun hans.
 • Merkingin skal vera þannig gerð að hún þoli mismunandi veður, sé skiljanleg starfsmönnum og eftirlitsmönnum Vinnueftirlitsins. Merkingin skal vera auðlesanleg og skal henni komið fyrir á uppsettum röraverkpalli þar sem aðgengi er auðvelt að henni.
 • Þegar unnið er við uppsetningu og niðurtöku röraverkpalls skal merkja það svæði þar sem vinna fer fram með almennum viðvörunarmerkjum.
Reglugerð nr. 729/2018 um röraverkpalla