Fréttir

Ný eftirlitsaðferð

20.9.2016

Ný eftirlitsaðferð - fjögur fiskvinnslufyrirtæki í dagsektarferli

Vinnueftirlitið hefur verið með eftirlitsátak í fiskvinnslufyrirtækjum frá 2013. Því miður virðist vinnuslysum ekki fækka hjá fiskvinnslufyrirtækjum. Árið 2015 var Vinnueftirlitinu tilkynnt um 190 vinnuslys í fiskvinnslu. Vorið 2016 ákvað Vinnueftirlitið að þróa nýja eftirlitsaðferð sem felst í því að þegar fyrirtæki fá fleiri en 5 fyrirmæli vegna véla og tækja þá fá þau fyrirmæli um að leita sér aðstoðar viðurkennds þjónustuaðila í vinnuvernd.
Vinnueftirlitið heimsótti fjögur fiskvinnslufyrirtæki í lok maí sl. en þegar gefin höfðu verið fimm fyrirmæli um vanbúnað véla og tækja var skoðun hætt og fyrirtækin fengu  fyrirmæli um að leita sér aðstoðar viðurkennds þjónustuaðila í vinnuvernd.

Af fyrirmælunum fimm þurfti að banna notkun einnar til þriggja véla á hverjum stað.

Það var mat Vinnueftirlitið að ekki væri til staðar fullnægjandi færni meðal starfsmanna og eigenda fyrirtækjanna til að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði vegna véla og tækja. Samkvæmt lögum ber fyrirtækjum að leita sér slíkrar aðstoðar hafi þau sjálf ekki næga þekkingu.
Við endurskoðun fyrirtækjanna í byrjun september kom annars vegar í ljós að þjónustuaðilarnir sem aðstoðuðu fyrirtækin við gerð skriflegrar áætlunar um öryggi og heilbrigði vegna véla og tækja höfðu unnið góða vinnu. Hinsvegar stóðu fiskvinnslufyrirtækin fjögur sig ekki nógu vel við að uppfylla fyrirmæli Vinnueftirlitsins og framkvæma þær úrbætur sem þjónustuaðilarnir lögðu til.

Öll fyrirtækin fjögur eru nú komin í dagsektarferli hjá Vinnueftirlitinu.

Á næstu mánuðum mun Vinnueftirlitið heimsækja fiskvinnslufyrirtæki um allt land og beita nýju eftirlitsaðferðinni.