Fréttir

Vinnueftirlitið vísar fjórum málum til lögreglu

16.12.2011

Máli eins fyrirtækisins var vísað til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu en hinna fyrirtækjanna til lögreglustjóra utan höfuðborgarsvæðisins, öll varða málin vinnu barna og unglinga við fiskvinnslu. Nánar tiltekið hefur Vinnueftirlitið grun um að fyrirtækin hafi gerst brotleg við X. kafla laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum og IV. og VII. kafla reglugerðar nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga. Telur Vinnueftirlitið hin meintu brot felast í því að fyrirtækin hafi skipulagt eða látið það viðgangast að vinnutími þeirra starfsmanna sem voru yngri en 18 ára og unnu við fiskvinnslu hjá fyrirtækjunum væri með þeim hætti að þeir unnu næturvinnu sem þeim var óheimilt að vinna, að þeir unnu lengri vinnutíma en þeim var heimilt að vinna og að þeir nutu ekki lögbundins hvíldartíma.