Fréttir

Vinnueftirlitið opnar nýjan vef

27.4.2001

Félagsmálaráðherra Páll Pétursson opnaði formlega nýjan vef Vinnueftirlitsins á ársfundi stofnunarinnar föstudaginn 27. apríl sl.. Vefurinn verður gagnagrunnur um vinnuverndarmál og mun bæta aðgengi að upplýsingum og gögnum um málefni vinnuverndar. Hægt verður að nálgast lög, reglur og reglugerðir ásamt ýmsu öðru efni af fjölbreytilegu tagi. Evrópskur vefur Vefurinn er hluti af sam-evrópskum vef sem Vinnueftirlitið er nú að tengjast og er hún notuð í ESB ríkjunum en EFTA ríkjunum hefur einnig verið boðinn aðgangur að netinu. Á vefnum er nú þegar hægt að tengjast heimasíðum Vinnueftirlits Bandaríkjanna og Kanada og munu Ástralía og Japan einnig vera á leiðinni til samstarfs inn í netið. Þannig má segja að vefurinn sé orðinn hnattrænn nú þegar. Evrópunetið hefur verið í þróun síðan 1997 en var formlega opnað haustið 1999 af Vinnuverndarstofnun ESB í Bilbao á Spáni (The European Agency for Safety and Health at Work). Í hverju landi fyrir sig er vefhópur eða stýrihópur sem er ráðgefandi um viðkomandi vef og kallast hópurinn ?Focal Point? og hefur vefurinn stundum verið kenndur við hópana og kallaður ?Focal Point vefurinn?. Málefnið á erindi til allra Þessi nýi vefur mun gagnast öllu fólki á vinnumarkaði og þar að auki er hann fengur fyrir alla sem áhuga hafa á málefnum vinnuverndar. Hann mun t.d. auðvelda námsmönnum og rannsóknarfólki að ná í upplýsingar þar sem hér er verið að safna saman öllu því efni sem til er um vinnuverndarmál á Íslandi. Hann er ekki síst fengur fyrir alla þá öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði sem starfa úti í fyrirtækjum og stofnunum og hafa nú aukna möguleika á að kynna sér málefni líðandi stundar, geta sent inn spurningar, kynnt sér nýtt útgáfuefni o.s.frv. Ennþá er hinn nýi vefur Vinnueftirlitsins eingöngu á íslensku en unnið er að því brýna verkefni að birta upplýsingar á öðrum tungum. Birtingarefni verður af fjölbreytilegum toga en nú þegar er þar að finna lög, reglur og reglugerðir, leiðbeiningar um vinnuvernd, yfirlit yfir rannsóknir og útgáfuefni svo eitthvað sé nefnt.