Fréttir

Vinnueftirlitið kynnti nýja reglugerð; Aðgerðir gegn einelti á vinnustað

10.12.2004

Reglugerðin var kynnt á morgunverðarfundi miðvikudaginn 8. desember s.l. og tekur hún gildi 20. des. n.k. eftir birtingu hennar í Stjórnartíðindum. Sjá reglur nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað

Markmiðið með reglugerðinni er að innan vinnustaða verði stuðlað að forvörnum og aðgerðum gegn einelti á vinnustöðum. 

Vinnuverndarlögin, Lög nr. 46/1980,  um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum voru endurskoðuð árið 2003, en þá kom inn ákvæði í V. kafla um framkvæmd vinnu, 38. gr. að félagsmálaráðherra ætti að setja nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlitsins, um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum.

Alþjóðavinnumálastofnunin hefur vakið máls á vandamálum er tengjast einelti og öðru ofbeldi á vinnustöðum. Í félagsmálasáttmála Evrópu, 2. mgr. 26. gr., er kveðið á um rétt fólks til mannlegrar reisnar í starfi. Þar kemur fram að stuðla skuli að aukinni vitund og forvörnum gegn endurtekinni, ámælisverðri eða ótilhlýðilegri og móðgandi háttsemi sem beinist að einstökum starfsmönnum á vinnustað eða starfi þeirra.

Litið hefur verið svo á að andlegt og félagslegt vinnuumhverfi fallið undir markmið vinnuverndarlaganna. Með setningu reglugerðar þessari um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum er verið að leggja áherslu á að innan vinnustaðanna verði stuðlað að forvörnum gegn einelti og ótilhlýðilegri háttsemi.

Í reglugerðinni kemur m.a. fram að atvinnurekandi skal skipuleggja vinnu þannig að dregið sé úr hættu á að þær aðstæður skapist í vinnuumhverfi, sem leitt geti til eineltis eða annarrar ótilhlýðilegrar háttsemi. Orsakir eineltis geta verið margvíslegar en skipulag og framkvæmd vinnu getur átt stóran þátt í að skapa aðstæður þar sem einelti getur þróast.

Á morgunverðarfundinum var einnig kynnt rannsókn um einelti á vinnustað, vinnuskipulag og líðan starfsmanna sem nýlega var birt í Læknablaðinu. Kynntur var nýútkominn bækling um einelti og kynferðislega áreitni á vinnustöðum, forvarnir og viðbrögð. Einnig var kynnt annað efni um sálfélagslega áhættuþætti sem er að finna á heimsíðu Vinnueftirlitsins undir útgáfa.


Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, fagstjóri og Svava Jónsdóttir, sérfræðingur í rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins