Fréttir

Vinna við asbest

9.8.2007

Viðhald og jafnvel niðurrif á húsum sem voru byggð á árunum 1950-1980 verður æ algengara eftir því sem árin líða og það eru einmitt hús sem byggð voru á þessum árum sem mestar líkur eru á að hafi asbest í byggingarefnum sínum. Iðnaðar- og verkamenn sem vinna við viðhald og niðurrif gamalla húsa eru þess vegna í auknum mæli að fást við asbest í starfi sínu. Í ljósi þess fór fram á seinni hluta síðasta árs sérstakt eftirlitsátak á Evrópska efnahagssvæðinu sem beindist að vinnu með asbest. Markmið eftirlitsátaksins var að vernda heilbrigði starfsfólks þar sem viðhald, niðurrif, brottflutningur og förgun efna sem innihalda asbest fer fram því reynslan sýnir að oft er fræðslu og þjálfun þessa starfsfólks ábótavant.

Af hverju er asbest hættulegt?
Orðið "asbest" er notað yfir nokkrar mismunandi tegundir steinefna sem finnast í náttúrunni og voru notaðar í vörur og efni af ýmsu tagi til að bæta eiginleika þeirra og er misjafnt eftir vörutegundum hve mikið af asbesti er í þeim. Dæmi um efni eða vörur sem innihalda asbest eru ýmis byggingarefni s.s. þakklæðningar, veggjaklæðningar, efni í eldvarnaveggjum, gólfefni, pípulagnir og hitaeinangrun.
Það sem ræður mestu um hættuna á asbestmengun er hve mikið af asbesttrefjum eru í efninu og hve auðveldlega þær losna og rykast upp. Asbesttrefjar geta losnað úr öllum varningi sem inniheldur efnið og myndað asbestryk en líkur á rykun aukast með aldri vörunnar og við það að varan skemmist.
Innöndun á asbestryki getur valdið sjúkdómum eins og ?steinlunga? (asbestosis) og krabbameini í lungum, fleiðruþekju og víðar. Sjúkdómar af völdum asbests hafa langan meðgöngutíma og koma jafnvel ekki fram fyrr en eftir 20-40 ár. Ekki er hægt að skilgreina örugg lágmarksviðmið vegna asbestmengunar og því ber að koma í veg fyrir alla mengun frá asbesti.

Asbest bannað frá 1. janúar 2005
Þann 1. janúar 2005 gekk í gildi allsherjarbann við notkun asbests á Evrópska efnahagssvæðinu. Í dag er því bannað að flytja inn, framleiða eða nota asbest og því er raun eina leyfða starfssemin með asbest sú að fjarlægja það eða farga því ásamt því að sinna nauðsynlegu viðhaldi.
Þegar fjarlægja þarf asbest er mismunandi af hvaða tegund og á hvaða formi viðkomandi asbest er og einvörðungu þeir sem hafa þekkingu og réttindi til verksins mega fjarlægja asbest úr byggingum eða af öðrum stöðum. Merkja ber greinilega þá staði þar sem unnið er við niðurrif á asbesti. Asbestinu er síðan fargað í samráði við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga.
Vinnueftirlitið heldur reglulega réttindanámskeið fyrir þá sem vinna við niðurrif á asbesti og sömuleiðis sér Vinnueftirlitið um að afgreiða starfsleyfi fyrir asbestverk, að því gefnu að umsókn fullnægi þeim forsendum sem skilyrtar eru. Umsóknareyðublöð vegna leyfis til meðhöndlunar á asbesti og reglugerðir um asbest má nálgast á heimasíðu Vinnueftirlitsins.
Rétt er að vekja athygli verktaka á því að þegar boðið er í viðhaldsverk í byggingum sem eru 30-60 ára getur verið góð regla að gera ráð fyrir því í tilboði að í húsinu gæti verið asbest sem þurft gæti að fjarlægja með auknum tilkostnaði.

Sjá nánar reglugerð nr. 430/2007 um bann við notkun asbests á vinnustöðum.
Samhliða setningu þessarar reglugerðar þá falla úr gildi reglur nr. 379/1996, um asbest.
Vinnueftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar.