Fréttir

Vinna í opnu rými - Hádegisfyrirlestur 8. febrúar í Odda

6.2.2008

Hvaða kostir og gallar fylgja því að vinna í opnu rými?
Hvaða máli skiptir hljóðhönnun?
Er hægt að taka tillit til ólíkra þarfa einstaklinga?
Er vinnuandinn ólíkur meðal starfsmanna sem vinna í opnu rými og þeirra sem vinna á lokuðum skrifstofum?

Þetta er meðal þess sem Ólafur Hjálmarsson fjallar um í fyrirlestri sem hann nefnir: Samspil hljóðhönnunar og menningar á vinnustað. Fyrirlesturinn verður haldinn föstudaginn  8. febrúar kl. 12.15 ? 13.15 í Háskóla Íslands, Odda, stofu 101. Fyrirlesturinn er í boði Rannsóknastofu í vinnuvernd.

Á síðari árum hefur orðið talsverð þróun í átt að opnara vinnuumhverfi en áður tíðkaðist. Á vinnustöðum eru byggð stór opin rými með fjölda vinnustöðva í stað lokaðra skrifstofa. Sömu þróunar hefur gætt í grunnskólum, þar sem opið heimasvæði fyrir allt að fjórar bekkjardeildir hefur tekið við af hefðbundnum kennslustofum. Er þessi þróun góð eða slæm og hentar hún öllum? Á því eru mjög skiptar skoðanir. Hver besta lausnin er fer eftir eðli starfseminnar. Sama lausn gildir ekki fyrir alla. Það sýnir reynslan. Mikilvægt er að átta sig á því að breyttu vinnuumhverfi getur fylgt breytt menning. Stendur vilji til að breyta henni? Það er spurning sem vert er að spyrja sig áður en ráðist er í breytingar.

Í fyrirlestrinum mun Ólafur Hjálmarsson fara yfir reynslu sína af hljóðhönnun vinnustaða, hvaða sjónarmið hefur þurft að sætta og hvernig útkoman hefur verið. Ólafur hefur áratuga reynslu af ráðgjöf á þessu sviði. Hann er verkfræðingur hjá Trivium ráðgjöf ehf og varaformaður Vinnuvistfræðifélagsins ? VinnÍs.