Fréttir

Vímuefnaprófanir: Bíðum eftir að reglur séu settar - göngum varlega fram

11.2.2013

Frá árinu 2000 hafa alls 40 einstaklingar látist í vinnuslysum. Ítarlegar rannsóknir á þeim með krufningum og réttarmeinafræðilegu aðferðum leiddu ekki í ljós vímuefni sem orsakavald. Í einu tilviki voru merki um að viðkomandi hafi verið í neyslu, en talið mjög hæpið að það hafi haft áhrif á slysaframvinduna. Byggt á þessu er erfitt að segja að vandi þessi sé umfangsmikill í íslensku atvinnulífi. Hann getur hins vegar verið töluverður í einstaka fyrirtækjum.


Í dag eru nokkur fyrirtæki að framkvæma vímuefnaprófanir á starfsmönnum sínum. Það er hins vegar enginn opinber aðili sem hefur eftirlit með slíku og engin lagaákvæði sem kveða á um hvernig skuli að slíku staðið. Gagnstætt þessu eru ítarleg ákvæði varðandi eftirlit lögreglu með ölvunar- og vímuefnaakstri. 

Það er ljóst að vímuefnaprófanir eru verulegt inngrip í einkahagi fólks. Það að samþykkja slíkt í ráðningarsamningi er í sjálfu sér þvingað samþykki, þar sem allir þurfa að vinna. Hvenær á að gera slík próf? Er það einvörðungu þegar áhættumat starfsins leiðir í ljós mikla áhættu eða er líka réttlætanlegt að gera slíkt undir öðrum kringumstæðum? 

Vímuefnaprófanir eru ónákvæmar í eðli sínu. Menn geta greinst jákvæðir ranglega af ýmsum ástæðum. Meðal annars eru þrjú þeirra efna sem algengt er að prófa fyrir, lyf sem réttilega notuð, eru til þess fallin að efla færni og hæfni einstaklings sem starfsmanns.  Jákvæð niðurstaða, röng eða rétt, getur haft veruleg áhrif á sálfélagslegt vinnuumhverfi starfsmannsins og vinnustaðarins í heild.  Þá þarf að vera ljóst hvað er gert við jákvæða niðurstöðu. Er hún sannreynd og í framhaldi gripið til viðbragða gagnvart starfsmanni? Er hann rekinn úr starfi eða er honum vísað til meðferðar?  Þá má ekki gleyma því að ef vinnuveitendur trúa um of á fælingarmátt slíkra lífsýnatöku þá getur mikilvægi árvekni verkstjóra gagnvart frávikum í hegðun starfsmanna minnkað með alvarlegum afleiðingum. 

Vinnuvernd eru hluti af mannréttindum okkar og í mannréttindasáttmálum er undirstrikað mikilvægi þess að eigi má að geðþótta raska einkalífi manna.

Alþjóðavinnumálastofnunin hvetur til þess að prófanir sem þessar séu gerðar í samræmi við lög og reglur. Hér á landi eru slíkar reglur ekki til. Stjórn Vinnueftirlitsins beindi því til velferðarráðuneytisins þann 25. júní 2012 að slíkar reglur yrðu samdar. Rétt er beina því til allra aðila að fara varlega fram í jafn viðkvæmu máli þar til reglur liggja fyrir. 

Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins