Fréttir

Viðurkenning þjónustuaðila á sviði heilsuverndar á vinnustað

12.2.2004

Samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum skal Vinnueftirlitið veita þjónustuaðilum, sem starfa á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum, viðurkenningu til starfa að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Félagsmálaráðherra mun setja reglugerð um það hvaða skilyrði þjónustuaðilar skulu uppfylla svo að þeir geti hafið starfsemi af þessu tagi.

Þjónustuaðili sem veitir heildstæða þjónustu á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum skal hafa aðgang að sérfræðingum sem hafa fullnægjandi þekkingu á heilbrigðissviði, í félagsvísindum, sálfræði, á tæknisviði eða öðru sambærilegu sérsviði þannig að þeir séu færir um að meta og bregðast við hættum eða hvers konar öðrum óþægindum vegna eðlisfræðilegra, efnafræðilegra, líffræðilegra, vistfræðilegra og sálfræðilegra þátta. Þjónustuaðili getur sótt um viðurkenningu innan ákveðins sviðs eða atvinnugreinar.

Þjónustuaðila er heimilt að gera samninga við aðra aðila um einstaka þætti vegna þjónustu á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum. Tryggja skal að þeir aðilar uppfylli skilyrði sem sett eru fyrir viðurkenningu Vinnueftirlitsins.

Þjónustuaðili skal gæta trúnaðar í starfi. Hann skal fara með allar upplýsingar sem hann kemst að í starfi sínu og varða persónuleg málefni og einkahagi starfsmanna sem trúnaðarmál. Sama gildir um upplýsingar sem tengjast fyrirtækjum er hann starfar fyrir.

Sérfræðingur, sem vinnur að heilsuvernd á vinnustað, skal starfa sem óháður, sérfróður aðili. Hann skal vera atvinnurekendum, fulltrúum þeirra og launafólki til ráðuneytis og ráðgjafar, svo og öryggistrúnaðarmönnum og öryggisvörðum, við að skapa sem öruggast og heilsusamlegast vinnuumhverfi.

Vinnueftirlitið veitir þjónustuaðilum tímabundna viðurkenningu, í eitt ár í senn, þar til ofangreind reglugerð hefur verið gefin út af félagsmálaráðuneytinu. 

Umsókn um viðurkenningu þjónustuaðila á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum  2003-2004

Engin umsóknareyðublöð eru notuð en senda skal Vinnueftirlitinu greinargerð um fyrirtækið og starfsemina, með staðfestum upplýsingar um starfsmenn og menntun þeirra. Ef fyrirtækið eða þjónustuaðilinn ræður til sína aðra ráðgjafa vegna verkefna eða einstaka þátta þjónustunnar (fagnet) skal samstarfssamningur fylgja umsókninni.

Tryggja skal að allir aðilar uppfylli skilyrðin sem sett eru fyrir viðurkenningu Vinnueftirlitsins.

Vinnueftirlitið mun halda námskeið haustið 2004 um túlkun vinnuverndarlaganna og áhersluþætti í vinnuvernd, en að hafa lokið slíku námskeiði verður ein af forsendum fyrir viðurkenningu þjónustuaðila á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum.

Þjónustuaðilar eru minntir á tilgang og markmið laganna og trúnað í starfi.


F. h. Vinnueftirlitsins,

Svava Jónsdóttir
sérfræðingur á rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins.