Fréttir

Viðurkenning ársins 2001 fyrir gott starf í vinnuverndarmálum

27.4.2001

Verðlaun fyrir gott starf í vinnuverndarmálum kemur að þessu sinni í hlut Íslenska álfélagsins hf., stjórnenda og starfsmanna. ISAL hefur á undanförnum árum unnið gott starf í vinnuverndarmálum og hafa þar allir lagst á eitt. Markvissar aðgerðir starfsmanna á vinnustaðnum hafa aukið mjög á öryggisvitund þeirra og endurspeglast í öllum störfum. Þetta breytta viðhorf hefur skilað sér í mikilli fækkun fjarveruslysa á vinnustaðanum. Í febrúar sl. náðist í fyrsta skipti sá árangur að 100 slysalausum dögum var náð, og nú eru slysalausir dagar hjá ISAL orðnir 162. Allir starfsmenn ISAL eiga hrós skilið fyrir árangurinn og vilj ég hvetja menn til áframhaldandi afreka á þessum vettvangi. Hjá ISAL eru öll slys og hérumbil slys skráð, og unnið markvisst með skráningargögnin svo koma megi í veg fyrir að svipuð atvik endurtaki sig. Samstarf við Vinnueftirlitið hefur verið gott gegnum árin sem endurspeglast í reglubundnum heimsóknum VER til ISAL og jákvæðum samskiptum. Í nýgerðum kjarasamningi ISAL við sína starfsmenn er ákvæði um að starfsmenn ISAL fá sérstaka umbun fyrir þá vinnu sem þeir leggja á sig vegna öryggis- og umgengnismála. Þetta ákvæði, sem er nýmæli í kjarasamningi á Íslandi, ber vitni um mikinn vilja til að gera vel í vinnunverndarmálum. Verulegar umbætur hafa orðið á starfsumhverfi í kerskálum m.a. með bættu innilofti. Hjá ISAL hefur verið unnið eftir ISO-staðli um gæðastjórnun frá 1993 og einnig eftir staðli um umhverfisstjórnun. Stefnt er að því að taka upp öryggisstaðal og öryggisstjórnunarkerfi. ISAL hefur miðlað öðrum fyrirtækjum af þekkingu sinni og reynslu á sviði vinnuverndar.