Fréttir

Viðurkenndir þjónustuaðilar á sviði vinnuverndar

21.9.2004

Vinnueftirlitið hefur viðurkennt nokkra aðila til að starfa sérstaklega sem þjónustuaðilar eða ráðgjafar á ýmsum sviðum vinnuverndar.

Samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, gr. 66.a getur atvinnurekandi leitað aðstoðar, við gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað, hjá hæfum þjónustuaðilum sem hafa hlotið viðurkenningu Vinnueftirlitsins.

Þjónustuaðili sem veitir heildstæða þjónustu á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum skal hafa aðgang að sérfræðingum á heilbrigðissviði, í félagsvísindum, á tæknisviði eða öðru sambærilegu sérsviði þannig að þeir séu færir um að meta og bregðast við hættum eða hvers konar öðrum óþægindum vegna eðlisfræðilegra, efnafræðilegra, líffræðilegra, vistfræðilegra og sálfélagsfræðilegra þátta.

Sérfræðingur, sem vinnur að heilsuvernd á vinnustað, skal starfa sem óháður, sérfróður aðili. Hann skal vera atvinnurekendum, fulltrúum þeirra og launafólki til ráðuneytis og ráðgjafar, svo og öryggistrúnaðarmönnum og öryggisvörðum, við að skapa sem öruggast og heilsusamlegast vinnuumhverfi.

Vinnueftirlitið getur ekki mælt með aðilum nema að viðkomandi ráðgjafi hafi fengið viðurkenningu Vinnueftirlitsins til að starfa á sviði öryggis- og heilbrigðismála á vinnustöðum.

Sjá nánar um viðurkennda þjónustuaðila