Fréttir

Viðhorf stjórnenda í fyrirtækjum til öryggis- og heilbrigðismála

1.9.2003

Skipta öryggis- og heilbrigðismál á vinnustöðum stjórnendur einhverju máli?

Á norrænu vinnuvistfræðiráðstefnunni NES 2003 sem haldin var nýlega voru flutt mörg áhugaverð erindi. Eitt þeirra flutti Kristiina Juvas um niðurstöður finnskrar rannsóknar þar sem könnuð voru viðhorf stjórnenda í iðnaðarfyrirtækjum til öryggis- og heilbrigðismála. Stjórnendur svöruðu spurningalista og viðhorf þeirra voru síðan skoðuð meðal annars eftir því hversu mörg vinnuslys höfðu átt sér stað í fyrirtækjunum og á hvaða valdaþrepi stjórnendurnir voru. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að viðhorf stjórnenda til öryggis- og heilbrigðismála voru jákvæðust þar sem slysatíðni er lág en þar sem vinnuslys er algeng voru viðhorfin neikvæðust.

Almennt höfðu stjórnendurnir jákvæða afstöðu gagnvart öryggismálum á eigin vinnustöðum. Æðstu stjórnendunum fannst þetta málefni mikilvægt og töldu að öryggis- og heilbrigðismálum væri vel stjórnað í fyrirtækjum sínum. Flestir stjórnendanna lögðu mikla áherslu á þátt starfsfólks í öryggismálum og margir bentu á mikilvægi þess að breyta viðhorfum starfsfólks til öryggis- og heilbrigðismála en töldu minni þörf á að bæta stjórnun öryggismála og vinnuskipulag.

Athyglisverður munur kom fram í viðhorfum stjórnenda eftir því á hvaða stjórnstigi þeir eru þ.e. lægra settir stjórnendur töldu mikilvægast að uppfylla kröfur laga um vinnuvernd en þeir hæst settu töldu mikilvægast að fyrirtæki þeirra væru öðrum fyrirtækjum, í sömu grein, til fyrirmyndar í öryggis- og heilbrigðismálum. Þar spilar ímynd fyrirtækja sjálfsagt inn í og að æðstu stjórnendur vilji að fyrirtæki þeirra beri af samkeppnisaðilum á þessu sviði og gefi þannig af sér jákvæða mynd.

Finnsku stjórnendurnir töldu almennt að ástæðna vinnuslysa væri að leita hjá starfsfólkinu sjálfu og þær mætti rekja til ákafa, hvatvísi eða hirðuleysi og að ekki væri farið að reglum. Öryggismál röðuðust, að mati stjórnendanna að meðaltali, í sjötta sæti af átta þegar meta átti hvaða mál væri mikilvægust í rekstri fyrirtækja. Ekki kemur ekki á óvart að þeir töldu fjármál, framleiðslu og sölu- og markaðsmál mikilvægust.

Megineinkenni þeirra fyrirtækja þar sem vinnuslysatíðni var lág voru:

  • Mikil samskipti milli stjórnenda og starfsmanna.
  • Áhersla á virka þátttöku stjórnenda og ábyrgð í verki til að verjast slysum og vernda starfsmenn gegn sjúkdómum.
  • Skýr markmiðssetning í öryggismálum.
  • Engin óþarfa áhætta tekin.

Kristiina Juvas benti á að stjórnendurnir í finnsku rannsókninni geri almennt of lítið úr eigin mikilvægi í stjórnun öryggismála. Áhugavert væri að athuga viðhorf íslenskra stjórnenda til þessara mála en samkvæmt íslensku vinnuverndarlögunum nr. 46/1980 ber atvinnurekendum skylda til að tryggja öryggi og heilbrigði starfsmanna sinna. Niðurstöður þessarar rannsóknar benda því á nauðsyn þess að fyrirtæki marki sér almennt stefnu í öryggis- og heilbrigðismálum sem á við öll stjórnstig þannig að skýrt sé hvaða hlutverk hver stjórnandi hefur í stjórnun öryggis- og heilbrigðismála á sínum vinnustað. Einnig að mikilvægt sé að virkja alla starfsmenn í að huga að þessum málum og hvetja til almennrar umræðu.

Juvas benti á að stjórnendur þurfi að vera virkari í að meta stöðu öryggismála í fyrirtækjum sínum og tengja betur öryggis- og forvarnastarf við almenna starfsemi í fyrirtækjunum. Stórauka þurfi gerð áhættumats í fyrirtækjum og að auka umræðu, menntun og þjálfun í öryggis- og heilbrigðismálum.

Ása G. Ásgeirsdóttir, sérfræðingur í Fræðsludeild Vinnueftirlitsins og verkefnastjóri Landsnets um heilsueflingu á vinnustöðum