Fréttir

Velferð á 21. öldinni hnignun eða framför

25.8.2003

17. norræna ráðstefnan í félagslækningum og lýðheilsu var haldin var í Árósum í Danmörku, 15.-17. ágúst sl. Á ráðstefnunni kom fram að velferð í svokölluðum velferðarríkjum gagnast þegnunum misjafnlega. Hvarvetna þar sem gerðar hafa verið rannsóknir á heilsufari mismunandi þjóðfélagshópa kemur í ljós að þeir, sem betur mega sín, njóta betri heilsu og lifa lengur en þeir sem verr eru settir. 

Fjölmargir fyrirlestrar voru fluttir á ráðstefnunni og fyrirlesarar komu víða að en þó einkum frá Norðurlöndum. Lykilfyrirlesarar komu frá Norðurlöndum og Bretlandi. Einna mesta athygli vakti fyrirlestur fyrsta lykilfyrirlesarans, Per Fugelli, prófessors við háskólann í Ósló. Hann taldi að vestræn þjóðfélög væru undir þungu oki ofgnægtanna ?to-much-ness?, þau hefðu færst frá örbirgð til ofgnóttar.  Fólk fitnaði af því að það borðaði of mikið og hefði úr of miklu að velja, sumir hreyfðu sig of mikið og ofbyðu líkamanum, menn óttuðust dauðann meira en góðu hófi gegndi vegna þess að því hefði um of verið haldið fram að heilbrigðisvísindin hefðu tekið svo stórstígum framkvæmdum að kannski væri hægt að komast hjá því að deyja. Alið væri á ótta fólks og öflurar stórþjóðir eins og Bandaríkjamenn ættu þar ekki hvað síst hlut að máli. Fólk hefði ímugust á þeim sem væru öðru vísi, og harðstjórn útjöfnunarinnar reyndist stundum dýrkeypt. Menn ættu að nota orð meira en tölur þegar um velferð væri að ræða. Fugelli vakti hrifningu undirritaðrar en svo öll sagan sé sögð varð þess vart eftir fyrirlesturinn að áheyrendur skiptust nokkuð í hópa í áliti sínu eins og búast mátti við eftir áhugavekjandi ræðu.

Eftir lykilfyrirlestrana skiptust menn í hópa og gátu valið um erindi sem flutt voru samtímis í mismunandi vistarverum. Yfirskrift fundanna gefa nokkra hugmynd um það sem um var fjallað: Vinna og umhverfi, heilsuvernd og heilbrigðisþjónusta, félagslegir áhrifaþættir, veikindafjarvistir, frjósemisheilbrigði, örorka og endurhæfing, börn, lífshættir og aðferðafræði. Fjölmargar rannsóknir voru kynntar, sem tengdust þessum yfirskriftum, og mikill og almennur áhugi virtist ríkja á því að heilbrigðisyfirvöld þyrftu að gera sér ljóst mikilvægi forvarna í stað þess að veita sífellt meiri fjármunum í heilbrigðisþjónustuna.
Undirrituð var eini Íslendingurinn á ráðstefnunni og kann það að sýna takmarkaðan skilning hérlendis á mikilvægi lýðheilsu og forvarna á heilbrigðissviði.

Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, sérfræðingur á rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins.