Fréttir

Vel mætt á fræðslufund í tilefni Evrópsku vinnuverndarvikunnar

18.10.2004

Um 100 manns mættu á morgunverðarfund á Grand Hóteli sem haldinn í tilefni þess að Evrópska vinnuverndarvikan hófst í morgun. 

Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, setti vinnuverndarvikuna í ávarpi sínu. Í erindum fundarins var fjallað um evrópskt byggingarátak, gæðastarf í byggingariðnaði, öryggis- og heilbrigðisáætlanir fyrir byggingarvinnustaði og TR- mælinn, Betri líðan ? Bættur hagur, en mælirinn er notaður á byggingarvinnustöðum til að bæta öryggi starfsmanna.

Í erindunum kom m.a. fram að u.þ.b. 1300 dauðaslys verða við byggingar- og mannvirkjagerð hjá aðildarríkjum Evrópusambandsins á ári hverju og 800.000 starfsmenn slasast við byggingarvinnu. Meira en 40% allra slysa eru fallslys. Byggingariðnaður er með meira en tvisvar sinnum hærri slysatíðni en meðaltal annarra  greina. Heildarkostnaður vegna vinnuslysa í ESB er talinn vera á milli 2,6 til 2,8 % af vergri þjóðarframleiðslu aðildarríkjanna. Í evrum er kostnaður talinn vera á milli 185 til 270 milljarðar. (tölur frá 15 aðildarþjóðum Evrópusambandsins fyrir stækkun)

Að þessum erindum loknum afhenti Eyjólfur Sæmundsson forstjóri Vinnueftirlitsins þremur fyrirtækjum viðurkenningar fyrir gott starf að öryggismálum.

Ístak fékk viðurkenningu fyrir gott innra starf við byggingu Vörumiðstöðvar Samskipa í Reykjavík.

Hannes Jónsson, byggingarverktaki fékk viðurkenningu góða framsetningu á öryggis- og heilbrigðisáætlun við stækkun rafstöðvarbyggingu að Nesjavöllum.

Keflavíkurverktakar fengu viðurkenningu fyrir gott öryggisstarf á sínum byggingarvinnustöðum.

Evrópska vinnuverndarvikan stendur frá 18.-22. október 2004. Í vikunni munu eftirlitsmenn Vinnueftirlitsins heimsækja byggingarvinnustaði um allt land og afhenda veggspjald sem kynnt var á fundinum og gert hefur verið í tilefni vinnuverndarvikunnar. Á veggspjaldinu eru kynntir 10 áhættuþættir sem eiga við á byggingarvinnustöðum og starfsmenn og stjórnendur eru beðnir að kynna sér þá vel. Þá munu fulltrúar verkalýðsfélaga einnig dreifa á veggspjaldinu.


Sigfús Sigurðsson, verkefnisstjóri Evrópsku vinnuverndarvikunnar