Fréttir

Úrskurður vegna kæru á hendur Vinnueftirlitinu

22.5.2003

Föstudaginn 9. maí 2003 var kveðinn upp úrskurður í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu vegna kæru á hendur Vinnueftirlitinu (VER) og  svokallaðrar prófnefndar vegna ADR-réttinda en það eru réttindi sem stjórnendur ökutækja, sem flytja hættulegan farm, þurfa að hafa skv. reglugerð nr. 984/2000.

Kæran var þannig til komin að fyrirtæki nokkurt kærði Vinnueftirlitið og prófnefndina fyrir að synja beiðni um endurnýjun ADR-vottorða starfsmanna fyrirtækisins. Fyrirtækið hafði sótt um framlengingu á vottorðum sem voru ekki útrunnin. Kærendur töldu afgreiðslu VER og prófnefndar ólögmæta og hvorki byggða á lögmætum né faglegum forsendum. Kæran var lögð fram með tilvísun í stjórnsýslulög nr. 37/1993 og þess krafist að synjun Vinnueftirlitsins og prófnefndar yrðu felldar úr gildi.

Kærendur töldu að vinnuregla VER um að endurnýja ekki ADR-skírteini fyrr en einn mánuður, að hámarki, sé eftir af gildistíma þeirra eigi sér hvorki stað í lögum né reglugerð sem í gildi var þegar umsóknirnar bárust. Þeir hafi haft hagsmuni af því að fá skírteinin endurnýjuð og því hafi synjunin verið brot á meðalhófs- og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, sbr.10. og 12 gr. laganna og jafnræðisreglu sbr. m.a. 11. gr. laganna.

Í umsögn Vinnueftirlitsins kemur fram að skírteinin hafi ekki verið endurnýjuð vegna þess að langt var í að þau rynnu út (6 mánuðir upp í tvö ár). Auk þess var á þessum tíma verið að undirbúa útgáfu nýrra reglna (984/2000) sem fólu í sér auknar kröfur um endurmenntun og vegna öryggisjónarmiða var ekki talið rétt undanskilja þessa ökumenn fyrirfram frá þessum viðbótarkröfum.

Niðurstaða ráðneytisins staðfestir að fyrrgreindar synjanir Vinnueftirlitsins og prófnefndar hafi verið byggðar á málefnalegum og lögmætum grundvelli. Vísað er í 4 gr. reglugerðar nr. 139/1995 (undanfari nýrri reglugerðarinnar frá 2000), þar sem segir að um hafi verið að ræða heimild til framlengingar gildistíma vottorðs en ekki skyldu. Ekki var heldur fallist á að um brot á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga hafi verið að ræða og  ekki heldur íþyngjandi ákvörðun sem feli í sér réttarskerðingu.