Fréttir

Umbyltingar á vinnumarkaði og vinnuvernd

2.11.2004

Hugleiðingar vegna fræðigreinar!

Það hefur verið rætt og ritað töluvert um áhrif stórfelldra breytinga í fyrirtækjum eða annarra mikilla umbyltinga á heilsu starfsmanna. Þar hefur komið í ljós, eins og vænta má, að niðurskurður á starfsemi hefur hvað mest áhrif. Í framhaldi af því koma oft fram neikvæðar breytingar á starfseminni að mati mati starfsmanna. Slíkt getur verið í formi þess að of litlar eða of miklar kröfur eru gerðar, starfsmenn missa stjórn á daglegum verkefnum sínum og missa stuðning frá samstarfsmönnum og eða yfirmönnum. Þetta hefur síðan verið tengt verri heilsu, auknum reykingum meðal starfsmanna og auknum skammtímaveikindafjarvistum. Hins vegar hafa áhrif stækkunar eða útþennslu fyrirtækis ekki verið skoðuð eins mikið. Það er því fengur í grein Hugo Westerlund og félaga um það efni í apríl á þessu ári (Workplace expansion, long-term  sickness absence and hospital admission, Lancet, 2004, 363: 1193-1197). Þar voru rannsakaðir 24036 einstaklingar, en upplýsingar um atvinnuþátttöku þeirra voru samfelldar úr gögnum úr Sænskum vinnuumhverfisrannsóknum frá 1989 til 1999. Helstu niðurstöður voru að mjög hraður vöxtur fyrirtækja, eða um og yfir 18% á ári, jók líkur á veikindafjarvistum og innlögnum á sjúkrahús. Hóflegur vöxtur af stærðargráðunni 8% til 18% dró hins vegar úr veikindafjarvistum. Í samræmi við það sem aðrir hafa fundið þá var samdráttur og niðurskurður tengdur auknum veikindafjarvistum.


Þar sem þetta eru fyrstu niðurstöður sem hafa sýnt hvaða áhrif ör vöxtur fyrirtækja hefur á veikindafjarvistir ber að túlka þær með ákveðnum fyrirvara.
Þessar niðurstöður styðja þó hina almennu skoðun í vinnuvernd að hóflegur vöxtur og stöðugleiki sé starfsmönnum mikilvægur til að tryggja vellíðan þeirra.  Fyrrtæki þurfa, samkvæmt þessu, að taka tillit til þess, í stefnu sinni í starfsmannaheilsuvernd,  hvaða áhrif vöxtur eða samdráttur í fyrirtækinu hefur á starfsmenn og bregðast við í samræmi við hvernig árar hjá fyrirtækinu. Opinberar stofnar, ríki og sveitarfélög þurfa í sínum stofnunum að tryggja stöðugleika og jákvæðan vöxt eða þróun þeirra en forðast tíðar umbyltingar, sem túlka má annað hvort sem verulega niðurskurð eða verulega aukin umsvif.


Grein Hugo Westerlund og félaga má finna á : www.lancet.com


Kristinn Tómasson,
Yfirlæknir Vinnueftirlitsins