Fréttir

Tilkynning til þeirra sem hyggjast flytja inn húsbíla, húsvagna, fellihýsi eða tjaldvagna sem innihalda gasbúnað

22.3.2005

Á undanförnum árum hefur töluvert verið um innflutning á húsbílum, húsvögnum, fellihýsum og tjaldvögnum, sem innihalda búnað sem uppfyllir ekki ákvæði reglna nr. 108/1996 um tæki sem brenna gasi. Nánar tiltekið er um að ræða búnað eða tæki sem brenna gasi og bera ekki svokallaða CE-merkingu og/eða þeim fylgir ekki samræmisyfirlýsing, sbr. 4. gr. reglna nr. 108/1996.

Rétt er því að vekja athygli á því að gasbúnað má einungis setja á markað og taka í notkun ef hann ógnar ekki öryggi manna, við venjulega notkun. Gasbúnaður, eins og er oft að finna í ofangreindum ökutækjum, fellur undir reglur nr. 108/1996 um tæki sem brenna gasi. Í því felst, eins og áður hefur komið fram, að búnaðurinn og tækin verða að bera CE-merki, ásamt því að samræmisyfirlýsing verður að fylgja búnaðnum.

 

Sá sem hefur í hyggju að flytja inn húsbíla, húsvagna, fellihýsi eða tjaldvagna, sem hafa að geyma gasbúnað, sem uppfylla ekki ofangreindar reglur, má eiga von á því að fá viðkomandi tæki ekki afgreidd úr tolli fyrr en úrbætur hafa verið gerðar í samræmi við ákvæði reglnanna. 

 

Athygli er vakin á að samkvæmt 48. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum hefur Vinnueftirlitið heimild til að banna notkun á þeim tegundum véla, tækja eða annars búnaðar sem fullnægja ekki ákvæðum laganna eða sérreglna sem settar eru á grundvelli þeirra eða viðurkenndra staðla er gilda á sameiginlegum markaði ríkja EES.

 

Áslaug Einarsdóttir

lögfræðingur Vinnueftirlitsins