Fréttir

Þrjú slys á tveimur vikum

30.8.2005

Á undanförnum tveimur vikum hafa orðið þrjú alvarleg vinnuslys í umdæmi Vinnueftirlitsins í Norðurlandi-eystra. Í öllum tilvikum er um samskonar slys að ræða, þar sem trésmiðir brjóta fingur eða taka framan af fingrum í sög, hjólsög í borði.  Í nýjasta slysinu, og því alvarlegasta, missti smiður framan af þremur fingrum hægri handar.  Eru þetta meiðsli sem teljast alvarleg og menn ná sér ekki af, þetta fylgir mönnum það sem eftir er því sjaldnast er hægt að bjarga fingrunum.  Það er sammerkt með slysunum að hlífarbúnað vantaði í öllum tilvikum á vélarnar, bæði blaðhlíf og kleyfi og jafnframt það að hvorki var notuð eftirreka né stuðningsklossi.  Í einhverjum tilvikum var búnaðurinn til á staðnum en ekki notaður.  Í öðrum tilvikum vantaði hann en yfirleitt er hægt að nálgast hlífarbúnað hjá seljendum trésmíðavéla.  Trésmíðavélar eru í eðli sínu hættulegar vélar en rétt notkun á hlífabúnaði minnkar verulega líkur á slysum og hefði jafnvel komið í veg fyrir þessi slys.

Brýnt er að starfsmenn, er vinni við hættulegar vélar, noti þann öryggisbúnað sem fylgir vélunum. Getur það bjargað mönnum frá meiðslum sem eru það alvarleg að þau há viðkomandi það sem eftir er. 

Rétt er að vekja athygli á því að það getur haft áhrif á ákvörðun skaðabóta til hins slasað, hvort hann hafi notað fyrirliggjandi öryggisbúnað þegar slysið átti sér stað. Getur starfsmaður fyrirgert rétti sínum til skaðabóta ef sýnt er fram á að slys hefði ekki orðið ef viðeigandi öryggisbúnaður hefði verið notaður.


Helgi Haraldsson, umdæmisstjóri hjá Vinnueftirlitinu