Fréttir

Þrjú fyrirtæki fá viðurkenningu fyrir andlega heilsueflingu

28.8.2003

Eimskip, Landsbankinn og Leikskólar Reykjavíkur hafa hlotið viðurkenningu Evrópuráðsins vegna evrópsks samstarfsverkefnis á sviði andlegrar heilsueflingar (Mental Health Promotion Project). Fyrirtækin þóttu hafa sýnt gott fordæmi á þessu sviði. Vinnueftirlitið hafði umsjón með verkefninu fyrir Íslands hönd.

Vinnueftirlitið er aðili að evrópsku samstarfsneti um heilsueflingu á vinnustöðum (The European Network of Workplace Health Promotion) sem styrkt er af Evrópuráðinu. Markmið andlega heilsueflingarverkefnisins var að safna saman upplýsingum um góð fordæmi á sviði andlegrar heilsueflingar á vinnustöðum og móta stefnu og starf í þessum málaflokki í þátttökulöndum Evrópu.

Vinnueftirlitið leitaði til íslenskra fyrirtækja sem hafa þróað verkefni tengd heilsuvernd, þ.m.t. andlegri heilsueflingu, og sendi upplýsingar um þau áfram til samstarfsnetsins. Þrjú þessara verkefna voru valin góð fordæmi. Þau eru:

  • Landsbankinn -  Starfslok, ný framtíð. Verkefnið fólst í  ráðgjöf og undirbúningi fyrir starfsfólk sem nálgast eftirlaunaaldur.
  • Eimskip - Starfsþróunarverkefni. Markmiðið var að auka hæfni, sjálftraust og þekkingu starfsfólks á fyrirtækinu. 
  • Leikskólar Reykjavíkur - Heilsuefling á leikskólum. Markmið með verkefninu var að auka þekkingu starfsfólks á vinnuvernd og bæta vinnuumhverfi og líðan og þar með talið andlega heilsu þess.

Í framhaldi af þessu evrópska samstarfi hefur verið stofnað hér á landi Landsnet um heilsueflingu á vinnustöðum. Markmið þess er að auka skilning á gildi heilsueflingar á vinnustöðum. Starf Landsnetsins mun fela í sér opna fræðslufundi, fyrirlestra flutta af erlendum sérfræðingum og störf gæðahópa. Umsjón með þessu verkefni hefur Ása G. Ásgeirsdóttir, sérfræðingur í Fræðsludeild hjá Vinnueftirlitinu