Fréttir

Þemadagar um framkvæmd Evróputilskipunarinnar um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar

26.11.2004

Í nóvember voru haldnir þemadagar í Maastricht í Hollandi um framkvæmd Evróputilskipunar nr. 90/269 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar. Fulltrúar Vinnueftirlitsins tóku þátt. Þrátt fyrir miklar tækniframfarir á vinnustöðum er enn algengt að starfsmenn þurfi að lyfta þungum byrðum og bera þær. Tíðni bakvandamála hjá vinnandi fólki í löndum Evrópusambandsins er talin hafa aukist á síðustu árum og eru þungar lyftingar taldar helsta orsök þessa.

Fulltrúar Evrópusambandslandanna töldu hlutverk og áherslur vinnueftirlitsmanna, sem tengjast tilskipuninni um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar, vera nokkuð mismunandi. Hlutverk og áherslur gátu verið að gefa upplýsingar um reglugerðina, sem tengist tilskipuninni, og ráðleggja um áhættumat þegar þungum byrðum er lyft, þær bornar eða fluttar úr stað. Jafnframt að koma með hugmyndir að lausnum á vinnustöðum og taka þátt í að búa til verklagsreglur sem tengjast þessu.

Um helmingur eftirlitsstofnana styðjast við matskerfi, sem ýmist eru byggð á stöðlum frá Bandaríkjunum (NIOSH), ?Leitmerkmal? kerfinu þýska, enska MAC kerfinu eða skandínavíska ?götuljósa? kerfinu. Aðrar stofnanir styðjast við eigin kerfi sem byggð eru á ýmsum rannsóknum og stöðlum eins og t.d. ISO, DIN og EN.

Fulltrúar á fundinum voru sammála um að ekki hafi náðst ásættanlegur árangur við framkvæmd tilskipunarinnar. Helsta hindrun þess að ná árangri með tilskipuninni þykir fyrst og fremst vera þekkingarskortur hjá vinnuveitendum og starfsmönnum um lög og reglur, áhættuþætti og áhættumatsaðferðir. Jafnframt er þekkingarskortur eftirlitsmanna talin hindrun og að sérfræðinga vanti sem geti bent á lausnir fyrir vinnustaði þar sem vinnan er líkamlega erfið. Skortur er á skýrum og einföldum stöðlum og samræmdri matsaðferð. Viðhorf vinnuveitenda og starfsmanna og mismunandi mat á hvað er ?erfið vinna? er einnig álitið mikilvægt og að hjálpartæki eru illa nýtt sökum tímaskorts, vana eða að starfsmenn séu haldnir Tarzan-heilkenni þ.e. telja sig þola mikið álag. Kostnaður við að kynna vinnuvistfræðilegar aðferðir eða hjálpartæki er einnig talin vera hindrun.

Niðurstaðan er sú að þörf er á samræmdum skýrum matsaðferðum sem eru einfaldar í notkun. Jafnframt er þörf að vekja umræðu um líkamlega áhættuþætti sem tengjast þungum lyftingum og finna lausnir sem geta nýst til forvarnar við erfiðisvinnu.

 
Vinnueftirlitið mun á næstu vikum gefa út leiðbeiningarit um varnir gegn líkamlegum álagsmeinum þar sem fjallað verður um líkamsstöður við vinnu, þungar lyftingar og einhæfa álagsvinnu.


Berglind Helgadóttir
sjúkraþjálfari/sérfræðingur í vinnuvistfræði