Fréttir

Tengsl sálfélagslegra áhættuþátta og einkenna frá stoðkerfi

2.12.2003

Í nýjasta hefti American Journal of Industrial Medicine birtist grein frá rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins þar sem fjallað er um sálfélagslega áhættuþætti og einkenni frá stoðkerfi hjá konum sem vinna á öldrunarstofnunum og öldrunardeildum sjúkrahúsa á Íslandi.

Rannsóknin var gerð á stofnunum þar sem starfsmenn voru 10 eða fleiri. Niðurstöðurnar sýndu fylgni á milli einkenna frá stoðkerfi og ýmissa þeirra sálfélagslegu þátta sem spurt var um. Að vera úrvinda eftir vinnuvaktina og að hafa orðið fyrir áreitni, ofbeldi eða hótunum í vinnunni tengdist einkennum frá hálsi/hnakka, öxlum og mjóbaki.

Niðurstöðurnar benda eindregið til nauðsynjar þess að huga að tengslum sálfélagslegra þátta og líkamlegra einkenna í heilsuvernd starfsmanna.

Höfundar greinarinnar eru Hólmfríður K. Gunnarsdottir, Guðbjörg L. Rafnsdottir, Berglind Helgadottir og Kristinn Tómasson. Titill hennar á ensku er Psychosocial risk factors for musculoskeletal symptoms among women working in geriatric care.