Fréttir

Sýslumaðurinn á Blönduósi og Vinnueftirlitið gera samning um innheimtu dagsekta

9.6.2012

 
undirritun_samings_syslumadur_blondos_(7)
 
Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins (tv) og Bjarni Stefánsson, sýslumaður á Blönduósi takast í hendur eftir undirritun samningsins.
 
Vinnueftirlitið og Sýslumaðurinn á Blönduósi, fyrir hönd Innheimtumiðstöðvar embættisins (IMST), hafa gert með sér samstarfssamning um sektarinnheimtu. Í samningnum felst m.a. að IMST tekur að sér innheimtu á dagsektum sem Vinnueftirlitið beitir.
Þeir Bjarni Stefánsson, sýslumaður á Blönduósi, og Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins, undirrituðu samstarfssamninginn þann 24. maí sl.
Innheimtumiðstöðin hefur frá vordögum 2006 sinnt innheimtu sekta og sakarkostnaðar á landsvísu sem hún tók við af 26 sýslumanns- og lögreglustjóraembættum. Þá hefur innheimtumiðstöðin tekið að sér innheimtuverkefni fyrir hinar ýmsu stofnanir, s.s. endurkröfur skaða- og miskabóta fyrir bótanefnd, endurkröfur vegna gjafsókna, endurkröfur ofgreiddra bóta fæðingarorlofs- og atvinnuleysistryggingasjóðs, endurkröfur bóta greiddra umfram rétt fyrir Tryggingastofnun ríkisins og loks innheimtuverkefni fyrir FME.