Stofnfundur landsnets um heilsueflingu á vinnustöðum
Stofnfundur landsnets um heilsueflingu á vinnustöðum var haldinn 12. maí sl. hjá Vinnueftirlitinu.
Stofnun landsnetsins er liður í evrópsku netsamstarfi sem Vinnueftirlitið hefur tekið þátt í síðustu 5 árin. Evrópsku samstarfsnetið um heilsueflingu á vinnustað "The European Network for Workplace Health Promotion" hefur heilsueflingu og forvarnir á vinnustöðum að markmiði sínu og taka öll aðildarríki Evrópusambandsins og lönd evrópska efnahagssvæðisins þátt í því. Markmið samstarfsnetsins fyrir næstu árin er m.a. að stofna landsnet í öllum þátttökulöndum í Evrópu.
Hvers vegna landsnet um heilsueflingu á vinnustöðum?
Í vinnunni fer fram stór hluti af athöfnum daglegs lífs og því er mikilvægt að umræða um heilsu og heilsueflingu eigi sér stað á þeim vettvangi.
Með starfi Landsnets um heilsueflingu á vinnustað á Íslandi er ætlunin að umræða um lýðheilsu og vinnuvernd fái greiðari aðgang að vinnustöðum.. Í þessu samhengi er hugtakið heilsuefling á vinnustað skilgreint vítt og felur í sér að bæta líkamlega, andlega og félagslega færni vinnandi fólks á Íslandi.
Heilsuefling getur til dæmis falist í:
- öruggu og aðlaðandi vinnuumhverfi
- skýrum boðleiðum og jákvæðum samskiptum
- að fyrirtæki búi til vinnureglur um áfengis- og vímuefnanotkun
- að bjóða upp á heilsusamlegum mat í mötuneytum
Hlutverk landsnets um heilsueflingu á vinnustöðum
Starfsemi netsins er ætlað að ná athygli ráðandi afla í þjóðfélaginu, auka almennan skilning á gildi heilsueflingar á vinnustöðum og stuðla að aukinni ábyrgð og þátttöku þeirra sem í hlut eiga þ.e. vinnuveitenda, starfsfólks, stjórnenda, félagasamtaka, fagfólks og hins opinbera. Landsnet um heilsueflingu á vinnustöðum verður hýst hjá Vinnueftirlitinu
Með landsnetinu verður hægt að tengja saman fyrirtækin sem hafa tekið þátt í starfinu síðustu fimm árin og þau sem hafa sýnt huga á samstarfi og hvetja önnur til þátttöku. En þar sem þetta er samfélagslegt verkefni er mikilvægt að ólíkir hagsmunaðilar í þjóðfélaginu komi að því og styðji þennan málstað.
Á fundinn 12. maí sl. mættu eða sendu stuðningsyfirlýsingu
- Fyrirtæki og stofnanir sem hafa tekið þátt í samstarfsverkefnum Vinnueftirlitsins og Evrópska samstarfsnetsins um heilsueflingu á vinnustöðum (ENWHP) á síðustu 5 árum og önnur áhugasöm fyrirtæki. Þessi fyrirtæki eru Landsvirkjun, Eimskip, Leikskólar Reykjavíkur, Landspítali, Sjóvá-Almennar, Landsbankinn, Íslensk Erfðagreining, Landsvirkjun, Kirkjugarðar Reykjavíkur, Alcan á Íslandi.
- Fulltrúar lýðheilsusamtaka og ráðum/stofnanna er vinna að heilsueflingarmálum og almannaheill: Áfengis- og vímuvarnarráð, Reykjalundur, Vinnuvistfræðifélag Íslands, Manneldisráð, Geðrækt, Landlæknisembættið,
- Aðilar vinnumarkaðarins: Samtök atvinnulífsins, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, Alþýðusamband Íslands
- Fulltrúar ráðuneyta og ríkisstofnunum sem hafa með þennan málaflokk að gera: Heilbrigðisráðuneytið, Fjármálaráðuneytið, Félagsmálaráðuneytið, Vinnueftirlitið og Tryggingastofnun.
Erindi á fundinum fluttu:
Anna Hermannsdóttir starfsþróunarstjóri hjá Leikskólum Reykjavíkur og kynnti hún heilsueflingarstarf innan Leikskólanna.
Árný Elíasdóttir, fræðslustjóri og Ingunn Vilhjálmsdóttir, sérfræðingur í starfmannadeild Eimskips og kynntu þær starfsþróunarverkefni/andlega heilsueflingu innan Eimskips.
Dagrún Þórðardóttir, skrifstofustjóri Vinnueftirlitsins en hún kynnti starf Evrópska samstarfsnetsins um heilsuefling á vinnustöðum (ENWPH) og samstarfið síðustu 5 árin.
Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins en hann fjallaði um ávinning á heilsueflingarstarfi vinnustaða.
Ása Guðbjörg Ásgeirsdóttir, verkefnisstjóri landsnets um heilsueflingu á vinnustöðum og kynnti hún starfið framundan og drög að yfirlýsingu um heilsueflingu á vinnustöðum á Íslandi.
Starfið framundan mun fela í sér að:
- leiðbeina fyrirtækjum og stofnunum um hvernig hægt sé að koma á árangursríkri heilsueflingu á vinnustöðum
- skapa umræðuvettvang um tengd efni svo sem gæðastjórnun og matsaðferðir
- standa fyrir kynningum og útgáfustarfsemi
- miðla reynslu og upplýsingum í fréttabréfi, á netinu og á reglulegum fundum
- koma vinnustöðum er sýna góð fordæmi í heilsueflingu á framfæri opinberlega
Það er von okkar sem stöndum að landsnetinu að það að skapa umræðu og koma á framfæri þeim fyrirtækjum sem eru að gera jákvæða hluti í heilsueflingarmálum verði það öðrum hvatning til að hefja heilsueflingarstarf. Við viljum einnig hvetja til umræðu vinnustaða í milli þannig að þeir læri af hver öðrum og marki sér stefnu í heilsueflingarmálum.
Áhersla er lögð á að auka ábyrgð og frumkvæði stjórnenda og að heilsueflingin sé byggð inn í mikilvæga stefnumótun í fyrirtækjum og að hún verði mikilvægari þáttur í innra starfi fyrirtækja en hún er í dag.