Fréttir

Rannsóknarstofa í vinnuvernd

19.1.2006

Markmið

Markmið Rannsóknastofu í vinnuvernd er að hrinda af stað og styðja við þverfaglegar rannsóknir og fræðslu á sviði vinnuverndar. Með vinnuvernd er átt við starfsemi sem miðar að því að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi. Rannsóknir í vinnuvernd lúta að samspili vinnuumhverfis, vinnuskipulags og stjórnunar annars vegar og aðbúnaði, heilsu og líðanar starfsmanna hins vegar. Starfsemi rannsóknastofunnar er samstarfsverkefni Vinnueftirlitsins og Háskóla Íslands.

Stjórn

Stjórn Rannsóknastofu í vinnuvernd er skipuð sex mönnum. Forseti félagsvísindadeildar tilnefnir þrjá stjórnarmenn frá mismunandi deildum Háskóla Íslands. Deildarstjóri rannsókna- og heilbrigðisdeildar Vinnueftirlitsins tilnefnir þrjá.

Stjórnina skipa f.h. Vinnueftirlitsins:

- dr. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir félagsfræðingur, formaður stjórnar (linda@ver.is)
- dr. Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisvísindum (hkg@ver.is)
- dr. Kristinn Tómasson yfirlæknir (kristinn@ver.is)

Stjórnina skipa f.h. Háskóla Íslands:

- dr. Herdís Sveinsdóttir, dósent í hjúkrunarfræði (herdis@hi.is)
- dr. Sigurður Thorlacius, dósent í læknisfræði (sigurdth@tr.is)
- dr. Þórólfur Þórlindsson, prófessor í félagsfræði (thorotho@hi.is)

Aðsetur

Rannsóknastofa í vinnuvernd hefur aðsetur í húsnæði Vinnueftirlitsins, Bíldshöfða 16, 110 Reykjavík. Sími: 550 4600, Fax: 550 4610, Netfang: rannsoknastofa.vinnuvernd@ver.is

Samstarfssamningur Vinnueftirlitsins og Háskóla Íslands

Þann 6. maí var undirritaður samstarfssamningur Vinnueftirlitsins og Háskóla Íslands um starfsemi Rannsóknastofu í vinnuvernd.
Samstarfið er á milli rannsókna- og heilbrigðisdeildar Vinnueftirlitsins annars vegar og félagsvísindadeildar Háskóla Íslands hins vegar. Samstarfssamningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Félagsvísindastofnunar 18. desember 2003 og á stjórnarfundi Vinnueftirlitsins 9. febrúar 2004.

Eyjólfur Sæmundsson forstjóri og Kristinn Tómasson, deildarstjóri rannsókna- og heilbrigðisdeildar, undirrituðu samninginn fyrir hönd Vinnueftirlitsins og Páll Skúlason háskólarektor og Ólafur Harðarson, deildarforseti félagsvísindadeildar, fyrir hönd Háskóla Íslands. Samningur Vinnueftirlitsins og Háskóla Íslands gildir uns hann er endurnýjaður eða annar aðilinn segir honum upp.

Starfsreglur og stofnsamningur

1.gr
Almennt

Rannsóknastofa í vinnuvernd er vísindaleg rannsókna- og fræðslustofa sem er starfrækt af Vinnueftirliti ríkisins og Háskóla Íslands. Rannsóknastofan heyrir annars vegar undir rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins og hins vegar Félagsvísindastofnun samkvæmt 3. tölul. 4. mgr. 27. gr. reglna nr. 458/2000 um Háskóla Íslands og 4. gr. reglna nr. 842/2002 um Félagsvísindastofnun. Rannsóknastofunni er ætlað að vera víðtækur vettvangur rannsókna á sviði vinnuverndar. Markmið rannsóknastofunnar er jafnframt að miðla vísindalegri þekkingu um vinnuvernd og laða fræðimenn til starfa á þessu sviði.

2.gr.
Hlutverk

Hlutverk Rannsóknastofu í vinnuvernd er að auka og efla rannsóknir í vinnuvernd m.a. með því að:

  1. eiga frumkvæði að og sinna rannsóknum á sviði vinnuverndar

  2. sinna rannsóknatengdum þjónustuverkefnum á sviði vinnuverndar þegar henta þykir

  3. efla tengsl rannsókna og kennslu og samhæfa rannsóknir á sviði vinnuverndar

  4. hafa samstarf við innlendar og erlendar rannsóknastofnanir og fræðimenn á sviði vinnuverndar og efla tengsl við atvinnu- og þjóðlíf

  5. veita nemum í rannsóknanámi aðstöðu og búnað til rannsóknastarfa og veita nemum þjálfun og reynslu í vísindalegum vinnubrögðum með því að gefa þeim kost á að vinna rannsóknastörf á vegum stofunnar eftir því sem unnt er

  6. kynna niðurstöður rannsókna m.a. með útgáfu fræðigreina, gangast fyrir fræðilegum námskeiðum, fyrirlestrum og ráðstefnum á sviði vinnuverndar

  7. leita samstarfs við deildir Háskóla Íslands um að auka þátt vinnuverndar í kennslu í tengslum við aðrar fræðigreinar.

3. gr.
Aðstaða

Vinnueftirlitið og Háskóli Íslands láta rannsóknastofunni í té starfsaðstöðu, svo sem húsnæði og búnað, eftir því sem kostur er og í samræmi við samstarfssamning Vinnueftirlitsins og félagsvísindadeildar.

4. gr.
Stjórn

Stjórn rannsóknastofunnar er skipuð sex mönnum, þremur frá rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins og þremur frá mismunandi deildum Háskólans. Deildarforseti félagsvísindadeildar Háskóla Íslands tilnefnir fulltrúa Háskólans.

Deildarstjóri rannsókna- og heilbrigðisdeildar tilnefnir fulltrúa Vinnueftirlitsins. Stjórnin kýs formann og skiptir með sér verkum.

5. gr.
Stjórnarfundir

Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi bréflega eða í tölvupósti með þriggja daga fyrirvara. Fundarboð skal greina frá dagskrá fundar. Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns eða þess sem gegnir formannsstörfum. Halda skal gerðarbók stjórnar og skulu staðfestar fundargerðir færðar í hana. Stjórnin skal halda a. m.k. einn fund á haust- og vormisseri.

6. gr.
Verkefni stjórnar

Stjórnin tekur allar stefnumarkandi ákvarðanir fyrir stofuna og setur henni starfsreglur. Stjórnin sker úr í vafaatriðum sem upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofunnar. Stjórnin ber ábyrgð á fjármálum rannsóknastofunnar gagnvart Félagsvísindastofnun / deildarforseta félagsvísindadeildar og gagnvart Vinnueftirlitinu / forstjóra og deildarstjóra rannsókna- og heilbrigðisdeildar, eftir því sem kveðið er á um í samstarfssamningi Vinnueftirlitsins og félagsvísindadeildar Háskóla Íslands. Stjórninni er heimilt að ráða forstöðumann eða aðra starfsmenn eftir því sem ástæður og efni gefa til.

7.gr.
Fjármál

Rannsóknastofan hefur sjálfstætt fjárhald en reikningshald hennar skal vera hluti af reikningshaldi félagsvísindadeildar Háskóla Íslands. Fjárhagsáætlanir og uppgjör skulu kynnt forseta félagsvísindadeildar og stjórn Félagsvísindastofnunar ásamt forstjóra Vinnueftirlitsins og deildarstjóra rannsókna- og heilbrigðisdeildar í samræmi við samstarfssamning Vinnueftirlitsins og félagsvísindadeildar Háskóla Íslands.