Fréttir

Staðreyndir um vinnustreitu

17.5.2006

Staðreyndir um vinnustreitu

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir tók saman nokkrar staðreyndir um vinnustreitu í tilefni evrópsku vinnuverndarvikunnar 21. ? 25. október 2002.

Vinnustreita er næst algengasta vinnutengda heilsufarsvandamálið í Evrópu og kemur næst á eftir bakverkjum skv. upplýsingum frá Evrópsku vinnuverndarstofnuninni EASHW. Um fjórðungur launþega í Evrópu á við vandamál að etja sem tengjast vinnustreitu. Nýleg íslensk rannsókn sem var unnin af Gallup í samvinnu við Vinnueftirlitið sýnir að 27% starfsmanna á Íslandi segjast búa við vinnustreitu og 42% segjast hafa of mikið að gera í vinnunni.

Rannsóknir sem hafa verið gerðar á rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins á líðan mismunandi starfshópa sína að tengsl eru á milli of mikils vinnuálags, erfiðra verkefna, óskýrra og mótsagnarkenndra markmiða og vinnustreitu. Því minna sjálfræði sem starfsfólk hefur, þeim mun meira finnur það fyrir streitu. Þeir sem upplifa mikla streitu í starfi eru líklegri til að finna til margs konar heilsufarsvandamála auk þess sem þeir eru meira fjarverandi frá vinnu vegna eigin veikinda. Starfsánægjan er minni meðal þeirra starfsmanna sem finna fyrir mikilli streitu í starfi.

Ástæður vinnustreitu geta verið margs konar, þar með talið félagslegt og andlegt álag t.d. vegna innihalds vinnunnar, vinnuaðstæðna og skipulags. Einnig getur verið um að ræða eðlis- og efnafræðilega þætti s.s. hávaða eða mengun. Góðir samskiptamöguleikar hafa ekki einungis þýðingu fyrir skilvirkt vinnuskipulag heldur einnig þörf fólks fyrir félagsskap og öryggi. Slæm samskipti geta valdið þeim sem fyrir verður mikilli vanlíðan og streitu. Einnig getur vinnustreita aukið líkurnar á slæmum samskiptum.

Hvað er vinnustreita?
Starfsmenn geta upplifað vinnustreitu þegar kröfurnar sem til þeirra eru gerðar eru meiri en þeir geta ráðið við. Streita er ekki sjúkdómur, en ef hún verður mikil og á sér stað yfir langan tíma getur hún haft í för með sér veruleg óþægindi fyrir starfsmenn. Það að vera undir tímabundinni pressu getur verið bæði gagnlegt og gaman, einkum þegar tekist er á við verkefni sem fela í sér jákvæða áskorun. En þegar pressan verður of mikil og allt að viðvarandi getur hún haft í för með sér álag sem getur verið neikvætt bæði fyrir starfsmenn og fyrirtæki/stofnanir.

Þegar ástæður veikindafjarvista sem taka til a.m.k. 2ja vikna eru skoðaðar kemur í ljós að um fjórðungur þeirra er vegna vinnustreitu skv. nýlegum upplýsingum frá frá evrópsku vinnuverndarstofnuninni. Það liggur því í augum uppi að streita getur kostað atvinnureksturinn mikið. Vinnustreita getur valdið andlegum óþægindum s.s. þunglyndi, kvíða, síþreytu og svefnerfiðleikum, en einnig líkamlegum óþægindum eins og bakverkjum, vöðvabólgu og hjarta- og æðasjúkdómum. Streita getur einnig dregið úr framleiðni, sköpunargáfu og samkeppnishæfni einstaklinga.

Varnir gegn vinnustreitu
Samkvæmt vinnuverndarlögunum eiga starfsmenn rétt á að vinnunni sé þannig fyrir komið að hún ógni ekki heilsu þeirra. Til þess að koma í veg fyrir vinnustreitu er mikilvægt að starfsmenn, stjórnendur og trúnaðarmenn á vinnustöðum geri áhættumat með því að:

 • Greina mögulega áhættuþætti í vinnuumhverfinu.
 • Átta sig á því hvort tilteknir starfsmenn eða starfshópar séu líklegri til að verða útsettir fyrir vinnustreitu en aðrir.
 • Gera úttekt á því hvað þegar hefur verið unnið á sviði forvarna, hvort þær forvarnir séu nægjanlegar og hvaða skref skulu tekin næst.
 • Endurtaka áhættumatið með reglulegu millibili og meta áhrif þeirra aðgerða sem gripið er til.

Til að komast að því hvort vandamál tengd streitu séu fyrir hendi á vinnustaðnum getur verið skynsamlegt að hugað að eftirfarandi þáttum:

 • Vinnustaðamenningu eða starfsandanum og hvort/á hvern hátt hann viðkemur vinnustreitu. Eru samskipti á milli starfsmanna opin og jákvæð? Fá starfsmenn stuðning ef vinnan reynist erfið? Ríkir gagnkvæm virðing meðal starfsmanna. Er tekið tillit til skoðana starfsmanna og/eða fulltrúa þeirra? Ef ekki þá ber að vinna að því að bæta samskiptin. Ekki gleyma starfsmönnum sem vinna hlutastarf eða á óhefðbundnum vinnutíma.
 • Kröfum svo sem vinnuálagi og áhættuþáttum sem lúta að líkamlegum álagsþáttum. Eru kröfur sem eru gerðar til starfsmanna of miklar eða of litlar? Eru starfsmenn hæfir til að gegna verkefnum sem þeir eru ráðnir til? Gera aðstæður á vinnustað þeim kleift að leysa verkefnin eins og til er ætlast? Hvað með þætti eins og hávaða, titring, loftræstingu eða lýsingu? En ofbeldi, áreitni, einelti eða hótanir?
 • Sjálfræði ? að hve miklu leyti starfsmenn geta haft áhrif á hvernig þeir vinna og ákvarðanir sem eru mikilvægar fyrir starf þeirra. Mikilvægt er að starfsmenn geti notað hæfileika sína eins og kostur er í starfi og fái möguleika til starfsþróunar. Möguleikar á endur- eða símenntun eflir hæfni starfsmanna og eykur líkurnar á starfsánægju.
 • Samskiptum, þar með talið einelti og áreitni. Hvernig eru samskiptin á milli samstarfsmanna og á milli starfsmanna og stjórnenda? En á milli æðstu stjórnenda og millistjórnenda? Eru einhverjar vísbendingar um samskiptavandamál eða einelti, áreitni eða hótanir? Mikilvægt er að til staðar séu verklagsreglur um hvernig tekið skuli á erfiðum samskiptamálum.
 • Fyrirhuguðum breytingum er varða starfsmenn, á hvern hátt breytingar í vinnuumhverfinu og vinnufyrirkomulaginu eru framkvæmdar og kynntar fyrir starfsmönnum.
 • Hlutverkum ? hvort þau séu skýr eða líkleg til þess að valda árekstrum á milli starfsmanna eða við önnur verkefni sem starfsmaður hefur með höndum.
 • Einstaklingsbundnum þáttum sem koma til móts við þá staðreynd að starfsmenn eru ekki allir eins og geta haft mismunandi getu, þarfir og langanir.

Eru til sérstakir áhættuhópar?
Allir sem lenda í tilteknum aðstæðum í vinnunni geta upplifað vinnustreitu. Þeir þættir sem nefndir eru að ofan geta hjálpað til við að sjá hverjir eru líklegastir til að vera í sérstakri áhættu.

Sem dæmi um vísbendingar um að vinnustreita sé til staðar má nefna eftirfarandi:

 • Þátttaka: Miklar fjarvistir, mikil starfsmannavelta, óstundvísi, hegðunarvandamál, gróf samskipti, einangrun eða útilokun tiltekinna starfsmanna.
 • Frammistaða: Minnkandi gæði framleiðslu eða þjónustu, vinnuslys, mistök.
 • Kostnaður: Aukin útgjöld vegna bóta eða heilsufars.
 • Hegðunarvandamál: Mikil neysla tóbaks, áfengis eða annarra vímuefna, ofbeldi, áreitni, einelti, hótanir.
 • Sálræn vandamál: Svefnvandamál, kvíðaröskun, þunglyndi, einbeitingarörðugleikar, pirringur, kulnun.
 • Heilsufar: Bakvandamál, hjartasjúkdómar, meltingarvandamál, magasár, háþrýstingur, lágt mótstöðuafl.

Ofannefndar staðreyndir um vinnustreitu eru unnar upp úr rannsóknargögnum Vinnueftirlitsins og ýmiss konar efni sem hefur verið gefið út af Evrópsku vinnuverndarstofnuninni í tilefni vinnuverndarvikunnar árið 2002.