Fréttir

Spurningar og svör

12.10.2005

  1. Hvað eru viðbragðsmörk og hvers vegna eru sett bæði efri og neðri viðbragðsmörk?
  2. Hvernig reiknar maður út daglegt hávaðaálag á starfsmann?
  3. Hvers vegna skyldi atvinnurekandi eyða fjármunum í hávaðavarnir - sérstaklega ef hávaðinn lækkar aðeins um nokkur desíbel?
  4. Af hverju þurfa atvinnurekendur að draga úr hávaða við upptök hans ef starfsmenn geta einfaldlega notað heyrnarhlífar?
  5. Hvað gerist ef starfsmaður neitar að nota heyrnarhlífar?
  6. Geta heyrnarhlífar einangrað of mikið?
  7. Hvað gildir um verktaka?
  8. Hvernig tapar maður heyrn vegna hávaða í vinnu, hversu langan tíma tekur það og hvernig eru áhrifin?

Til baka
Hvað eru viðbragðsmörk og hvers vegna eru sett bæði efri og neðri viðbragðsmörk?
Þegar viðbragðsmörkum er náð er gerð sú krafa að atvinnurekendur bregðist við til þess að draga úr þeirri hættu gagnvart öryggi og heilsu sem hávaðinn skapar. Það eru sett tvenn viðbragðsmörk fyrir jafngildishávaða á 8 stunda vinnudegi.
Neðri viðbragðsmörk daglegs hávaðaálags eru við 80 dB(A) LEX,8h. Þá er atvinnurekanda skylt að veita starfsmönnum og/eða fulltrúum þeirra upplýsingar, leiðbeiningar og þjálfun. Eins þurfa þeir að leggja starfsmönnum, sem búa við slíkt hávaðaálag, til heyrnarhlífar.
Efri viðbragðsmörk daglegs hávaðaálags eru við 85 dB(A) LEX,8h. Þá bætast við þær kröfur gagnvart atvinnurekanda að hann komi í framkvæmd áætlun um tæknilegar og/eða skipulagslegar ráðstafanir til að draga úr hávaðaálagi. Starfsmönnum er nú skylt að nota heyrnarhlífar á meðan áætluninni er hrint í framkvæmd og einnig ef ekki reynist unnt að draga úr hávaðaálaginu.

Til baka
Hvernig reiknar maður út daglegt hávaðaálag á starfsmann?
Í fyrsta lagi þarf að mæla hávaðann á þeim stöðum starfsmaðurinn vinnur á og við þau verkefni sem hann sinnir. Hávaðaálagið er reiknað út frá þeim mælingum að teknu tilliti til þess hversu lengi verið er á hverjum stað og í hverju verki.

Til baka
Hvers vegna skyldi atvinnurekandi eyða fjármunum í hávaðavarnir - sérstaklega ef hávaðinn lækkar aðeins um nokkur desíbel?
Reglugerð um hávaða á vinnustöðum krefst þess að dregið sé úr hávaðaálagi. Með því að ráðast að rót vandans og draga úr hávaða við upptök hans næst bestur árangur í því að vernda heyrn starfsmanna auk þess sem því fylgir ýmiss konar annar ávinningur. Hávaði veldur streitu og getur dregið úr öryggi á vinnustað með því að trufla samskipti, dreifa athygli og hann getur gert mönnum erfitt fyrir að greina aðvörunarhljóð.

Vegna þess að hávaði er mældur með lógaritmiskri einingu [dB(A)] þá þýðir það að lækkun hávaða um 3 dB(A), sem hljómar ekki sérlega mikið, jafngildir í raun helmingun hávaðans. Það þýðir að starfsmaður getur unnið helmingi lengur hávaða eftir að hann hefur verið lækkaður um 3 dB(A) án þess að hávaðaálagið aukist.

Til baka
Af hverju þurfa atvinnurekendur að draga úr hávaða við upptök hans ef starfsmenn geta einfaldlega notað heyrnarhlífar?
Heyrnarhlífar af ýmsum gerðum (heyrnarhlífar, tappar o.fl.) eru í raun ekki besta vörnin vegna þess að þær gera þá kröfu að starfsmaðurinn noti þær á réttan hátt. Þær geta einnig skilað minni einangrun en gert er ráð fyrir án þess að slíkt þurfi að vera augljóst. Einangrun heyrnarhlífa er háð ástandi þeirra og því að þær passi eða séu rétt settar á.

Til baka
Hvað gerist ef starfsmaður neitar að nota heyrnarhlífar?
Atvinnurekanda er skylt að sjá til þess að starfsmenn noti heyrnarhlífar þar sem hávaðaálag er yfir efri viðmiðunarmörkum. Það kann að vera ástæða til að fella þá kröfu inn í öryggisáætlun fyrirtækisins og að gera einhvern ábyrgann fyrir framkvæmdinni ásamt því að sjá til þess að viðeigandi heyrnarhlífar séu tiltækar.
Ef starfsmenn þráast við að nota heyrnarhlífar þarf að beyta eðlilegum aga og benda á að starfsmenn bera ábyrgð og skyldur jafnt og atvinnurekendur. Allir starfsmenn skyldu sína gott fordæmi og nota heyrnarhlífar við þau störf og á þeim svæðum þar sem þeirra er krafist.

Til baka
Geta heyrnarhlífar einangrað of mikið?
Of mikil dempun heyrnarhlífa getur verið til óþurftar. Þá verða öll samskipti erfiðari og sá sem notar heyrnarhlífarnar getur fengið einangrunartilfinningu.
Skv. EN-staðli 458 þá er dempun heyrnarhlífa góð ef hljóðstigið innan við hlífarnar er 5 dB undir neðri viðbragðsmörkum. Með því móti ættu samskipti ekki að raskast um of.

Til baka
Hvað gildir um verktaka?
Ef þú ert verktaki þá þarftu að gera sömu ráðstafanir til að vernda sjálfan þig eins og atvinnurekandi myndi gera til að vernda starfsmenn sína. Þú þarft því að nota heyrnarhlífar rétt eins og starfmenn fyrirtækja. Atvinnurekendur þurfa einnig að gera ráðstafanir til að vernda starfsmenn sína sem skila vinnunni sinni heima hjá sér.

Til baka
Hvernig tapar maður heyrn vegna hávaða í vinnu, hversu langan tíma tekur það og hvernig eru áhrifin?
Heyrnartap verður vegna skemmda á hárfrumum í kuðungi innra eyrans. Heyrnartapið lýsir sér annars vegar þannig að þröskuldur heyrnarinnar hækkar (við þurfum hærra hljóð til að skynja það) og hins vegar þannig að skynjun okkar á tíðni hljóðsins breytist.

Margir kannast við tímabundið heyrnartap. Eftir að hafa verið tímabundið í miklum hávaða finnum við fyrir heyrnartapi sem gengur til baka eftir einhvern tíma. Varanlegt heyrnartap getur orðið við skyndilegan og mikinn hvellhávaða eða langvarandi hávaðaálag (oftast einhver ár). Það er ekki víst að sá sem orðið hefur fyrir heyrnartjóni verði þess var fyrr en það er orðið svo mikið að það trufli daglegt líf. Varanlegt heyrnartjón getur þýtt að erfitt sé að fylgjast með samræðum í hópi fólks og að erfitt sé að nota síma. Þannig fer síðan að allt hljóð virkar dempað og erfitt reynist að heyra hljóð eins og "t", "d" og "s" og að greina í sundur áþekk orð. Félagsleg samskipti truflast því óhjákvæmilega.

Heyrnartjón tekur ekki tillit til aldurs eða heilsu. Ungir verða jafnt fyrir heyrnartjóni og þeir sem eldri eru. Einstaklingar á þrítugsaldri geta haft heyrn eins og búast má við hjá þeim sem eru á sjötugsaldri. Hafi heyrnin á annað borð skaðast þá verður ekki úr því bætt.

Heyrnartjón er ekki eina vandamálið. Eyrnasuð/tinnitus er algeng afleiðing vinnustaðahávaða og ekki síður fylgifiskur heyrnartjóns. Flestir þekkja tímabundið eyrnasuð sem verður öðru hverju eftir veru á hávaðasömum vinnustöðum en þegar heyrnin tapast þá verður eyrnasuðið varanlegt. Fyrir suma er eyrnasuðið jafnvel enn verra en heyrnartapið.