Fréttir

Slys við vinnu í lokuðu rými

25.3.2010

Slys við vinnu í lokuðu rými
Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins
Ólafur Hauksson , aðstoðardeildarstjóri þróunar og eftirlitsdeildar
Í 30 ára sögu Vinnuslysaskrárinnar eru nokkur dæmi um mjög alvarleg slys sem hafa orðið þegar starfsmenn hafa verið að vinna í lokuðu rými þar sem af hefur hlotist dauði, lífshættulegt tjón eða örkuml.
  Slík vinna fellur undir reglur um öryggisráðstafanir við vinnu í lokuðu rými (nr. 429/1995). Með lokuðu rými er átt við rými þar sem hætta getur verið á súrefnisskorti og/eða lofttegundum yfir hættumörkum vegna ófullnægjandi loftræstingar. Dæmi um lokuð rými eru geymar, katlar, dælurými, eldsneytisgeymar, þurrrými, lagnastokkar, súrheysgryfjur, loðnuþrær, hráefnislestar fiskiskipa og kjallarar.
  Ekki er unnt að segja með vissu um fjölda þessara slysa en vísbendingar eru um að þau séu innan við 5 vinnuslys af hverjum 1000 tilkynntum vinnuslysum í landinu. Vitað er að komið hafa upp tilvik þar sem legið hefur við slysum af þessum toga en menn sloppið með skrekkinn. Slíkir atburðir hafa þá ef til vill ekki verið tilkynntir Vinnueftirlitinu.
Hvað gerist?
Tankar/lestar einkennast af því að þar er náttúruleg loftræsting annað hvort léleg eða engin og því getur orðið þar súrefnisþurrð eða eiturgufur myndast. Súrefnisþurrð getur orsakast af nokkrum ástæðum, t.d. ef unnið er við logsuðu inni í tönkum, gerjun á sér stað eða mikill sýklavöxtur. Yfir lengri tíma getur myndun ryðs leitt til súrefnisþurrðar en ryð myndast þegar súrefni hvarfast við málm. Þá ber einnig að geta þess að lofttegundir sem eru í sjálfu sér ekki hættulegar, eins og t.d.  köfnunarefni en hlutfall þess er um 78% í venjulegu andrúmslofti en hlutfall súrefnis er 21%. Ef maður fer inn í tank þar sem köfnunarefni er 100% þá missir hann skjótt meðvitund og deyr. Aðrar lofttegundir í þessum flokki eru t.d. koltvísýringur og helíum.
  Í andrúmsloftinu er súrefni um 21%. Fyrstu merki um súrefnisskort gera vart við sig ef hlutfall súrefnis fellur niður fyrir 17% en þá skerðist rökkursjón. Fæstir taka hins vegar eftir þessu. Jafnframt verða hjartsláttur og öndun hraðari. Þegar súrefnisþrýstingur fer í 14% til 16% eykst hraði enn frekar á hjartslætti og öndun en jafnframt minnkar geta til að stjórna hreyfingum, þreyta hellist hratt yfir og andardráttur verður með hléum. Þegar súrefni er komið niður í 6% - 10% fer að bera á ógleði og uppköstum, einstaklingurinn verður bjargarlaus og meðvitundarleysi er yfirvofandi. Ef minna en 6% er af súrefni í andrúmslofti missa menn fljótt meðvitund og deyja innan nokkurra mínútna.
  Það eru hins vegar fleiri hættur en súrefnisþurrð sem geta leynst í lokuðu rými.  Þannig getur verið eld- og sprengihætta af gufum sem þar myndast. Slíkt er háð styrk þessara rokgjörnu efna í rýminu og ekki síður magni súrefnis sem þar er. Þannig getur inndæling súrefnis fært hlutþrýsting þessara efna yfir á það svið þar sem sprengihætta er mikil.
  Eiturgufur eru síðan enn ein hættan. Þær geta verið til staðar vegna þess að lokaða rýmið er notað til að geyma slík efni en einnig geta þær myndast vegna vinnu við viðhald, umhirðu eða vegna gerjunar/rotnunar. Í þessu sambandi er rétt að minna á kolmónoxíð sem myndast við bruna, þ.m.t. suðuvinnu, en slík eitrun læðist aftan að fórnarlambinu án þess að það finni fyrir nokkru fyrr en um seinan en kolmónoxíð er lyktar- og litlaust. Brennisteinsvetni er annað dæmi sem menn þekkja hérlendis t.d. í sambandi við jarðvarma og rotnun lífrænna efna, en það er þyngra en súrefnið og fellur þá til botns. Við lítinn styrk finnst lykt af því en það lamar lyktartaugarnar þannig að einstaklingurinn sem verður fyrir menguninni er ófær um að skynja hættuna og eftir fylgir óráð, öndunarbilun, meðvitundarmissir og dauði. Aðrar eitraðar lofttegundir sem er rétt að minna á eru blásýra, klór, köfnunarefnisoxíð og ammoníak. Ekki verður skilið við efnahætturnar án þess að nefna líffræn leysiefni sem mikið eru notuð í ýmsum efnaiðnaði en þessi efni eiga það flest hver sameiginlegt að gufur þeirra geta slævt miðtaugakerfið og þannig valdið meðvitundarleysi og dauða. Við minni styrk geta þau valdið varanlegum skaða á taugafrumum og valdið þannig örkumlun.
Hér er hægt að sækja Vinnuvottorð skv. reglum nr. 429/1995 um öryggisráðstafanir við vinnu í lokuðu rými.