Fréttir

Slys og hættur vegna gastækja ? að gefnu tilefni.

18.6.2007

Á hverju ári koma upp nokkur tilvik þar sem gastæki valda tjóni eða skapa verulega hættu. Á þessu ári hafa komið upp nokkur slík tilvik. Vegna þessa vill Vinnueftirlitið árétta mikilvægi þess að gastæki séu meðhöndluð með réttum og viðeigandi hætti og að tengibúnaður við þau, t.d. þrýstijafnarar, sé af réttri gerð og rétt stilltur.
 
Vakni grunur um að gastæki hafi orðið fyrir hnjaski eða rangur tengibúnaður hafi verið notaður við það ber að varast notkun. Nauðsynlegt er að skoða tækið sérstaklega í framhaldi af slíku með tilliti til hættu á að tækið framleiði aukið magn kolmónoxíðs, magn sem jafnvel getur verið svo mikið að venjuleg loftræsting dugar ekki til að tryggja örugg loftgæði.
 
Öll gastæki og búnaður sem þeim tengist sem tekinn er í notkun hér á landi skal vera með CE merki og skulu fylgja þeim leiðbeiningar á íslensku. Fara skal eftir leiðbeiningunum um uppsetningu og notkun búnaðarins. Mikilvægt er að gasskynjarar séu í rými þar sem gastæki er notað.
 
Búnað sem brennir gasi skal einungis nota í vel loftræstu rými og aldrei nota í lokuðu rými.  
 
Lokað rými getur verið ýmiskonar þar á meðal tjald, tjaldvagn, húsbíll og jafnvel hús eða herbergi þar sem uppsöfnum gastegunda getur átt sér stað. Við brunann myndast kolmónoxíð sem er lyktarlaus loftegund sem getur valdið bráðri eitrun og bana ef hún fer upp fyrir ákveðinn styrk.
 
Til að bregðast við þessari hættu þegar búnaður sem brennir gasi eða olíu er í notkun þarf að tryggja að loftræsting að honum sé næg. Einnig þarf að tryggja að útblástur frá brennara sé óhindraður og nái út undir bert loft.