Fréttir

Skýrsla um öldrunarþjónustu

25.9.2001

Heilsufar, líðan og vinnuumhverfi starfsfólks í öldrunarþjónustu

R annsókn sem Vinnueftirlitið gekkst fyrir á heilsufari, líðan og vinnuumhverfi starfsfólks í öldrunarþjónustu alls staðar á landinu leiddi í ljós að flestir starfsmanna telja starf sitt bæði andlega og líkamlega erfitt en fjölbreytt. Áberandi mikill munur var á svörum eftir því hvort svarendur voru hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, ófaglærðir í umönnun, ræstitæknar eða við önnur störf. Ánægja starfsfólks með starfið, starfsaðstæður og starfsandann fór einnig mjög eftir því hvort fólk tilheyrði hópi stjórnenda eða ekki. Deildarstjórar og aðrir yfirmenn voru yfirleitt ánægðari en aðrir. Rannsóknin vekur athygli á mikilvægi góðs vinnuumhverfis fyrir fólk í þessum störfum.

Í kjölfar rannsóknarinnar var gert sérstakt eftirlitsátak á öldrunarstofnunum og öldrunardeildum alls staðar á landinu. Til þess að kanna heilsufar, líðan og vinnuumhverfi starfsfólks í öldrunarþjónustu á Íslandi gekkst Vinnueftirlitið fyrir spurningalistakönnun 1.-2. nóvember árið 2000 sem tók til allra öldrunarstofnana og öldrunardeilda sjúkrahúsa á Íslandi. Rannsóknin er sú viðamesta sem gerð hefur verið á vinnuaðstæðum mismunandi starfshópa innan sama atvinnugeira á Íslandi.
Spurningalisti var lagður fyrir 1886 starfsmenn sem voru í vinnu ofangreindan sólarhring en sá hópur er meir en 1% vinnuafls á Íslandi. Mikill meirihluti svarenda voru konur, eða 96%. Spurt var bæði á íslensku og ensku til að ná til sem flestra starfsmanna. Svörun var 80%.
Annar hluti verkefnisins fólst í vinnueftirlitsátaki á þessum sömu stofnunum dagana 26.-30. mars, 2001. Mat fór fram á vinnurými á deildum og aðgengi að hjálpartækjum bæði út frá mati eftirlitsmanna og starfsmanna. Mikill meirihluti starfsfólksins sagðist ánægður í starfi. Deildarstjórar eða yfirmenn voru ánægðastir með starfsaðstöðuna en ófaglærðir síst. Margir sögðust oft vera andlega og líkamlega úrvinda eftir vinnuvaktina. Hlutfallslega flestir sjúkraliða, ófaglærðra og ræstitækna sögðust oftast líkamlega úrvinda eftir vinnuvaktina. Minnst var um það að deildarstjórar eða aðrir yfirmenn þyrftu að vinna við slæmar vinnuaðstæður eða að lyfta þungum byrðum. Á hinn bóginn hafði um 91% deildarstjóra og annarra yfirmanna fengið einhverja kennslu í líkamsbeitingu og vinnutækni en um 70% ófaglærðra starfsmanna. Í yfir 40% tilvika voru þó gerðar athugasemdir eða tímasettar kröfur um úrbætur varðandi kennslu í vinnutækni og líkamsbeitingu.

Þegar starfshóparnir voru skoðaðir kom í ljós að færri meðal hjúkrunarfræðinga og ?annarra? sögðust ekki hafa getað stundað dagleg störf einhvern tíma á undangengnu ári vegna óþæginda í herðum, öxlum eða mjóbaki en meðal ófaglærðra í umönnun, sjúkraliða og ræstitækna. Þetta bendir til þess að tengsl séu á milli óþæginda af þessum toga og vinnunnar. Um 70% ræstitækna sögðu starfið andlega einhæft samanborið við einungis 13% hjúkrunarfræðinga. Starfsmenn sem sögðu starfið andlega einhæft eða erfitt voru líklegri en aðrir til að hafa fundið til óþæginda í hálsi og hnakka, herðum, öxlum og mjóbaki á undangengnu ári. Þessir starfsmenn voru einnig óánægðari í starfi.
Rúmlega þriðjungur starfsmanna sagðist sjaldan eða aldrei fá stuðning frá yfirmönnum eða samstarfsmönnum þegar vinnan væri andlega erfið. Hlutfall svarenda, sem fékk aldrei stuðning, var hæst meðal ræstitækna en lægst meðal hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Þessir starfsmenn voru líklegri en aðrir til að finnast starfið andlega erfitt, að vera andlega úrvinda í lok vinnudags og vera almennt óánægðari í starfi. Þeir starfsmenn, sem töldu sig ekki fá stuðning, höfðu auk þess í meira mæli en aðrir starfsmenn leitað sér meðferðar vegna vöðvabólgu.
Þungt og þurrt loft olli oft óþægindum hjá 36-41% starfsfólks og óþægileg lykt hafði oft haft áhrif á tæplega þriðjung. Einn fjórði taldi þrengsli í vinnuumhverfinu oft hafa valdið sér óþægindum í síðasta mánuði. Í 22% tilvika voru gerðar kröfur um aukið rými við hjúkrunarrúm.

Starfsfólk var beðið að svara ýmsum spurningum um lífstíl, þ.e. líkamsrækt, mataræði, svefn, reykingar, áfengis- og vímuefnaneyslu. Niðurstöður sýndu að um 50% starfsfólks stunda líkamsrækt einu sinni til fimm sinnum í viku, um 40% sjaldnar en einu sinni í viku og um 10% stunda líkamsrækt daglega eða því sem næst. Rúmlega þriðjungur starfsfólks reykti þegar á heildina var litið en meir en 50% ófaglærðra undir 25 ára reykti. Hæst hlutfall reykingafólks var meðal ófaglærðra í umönnun eða um 43% en lægst meðal hjúkrunarfræðinga, eða um 23%.
Starfsfólk var beðið að svara ýmsum spurningum um heilsufar. Í ljós kom að um 86% starfsfólks sem vinna í öldrunarþjónustu leituðu einhvern tímann til læknis á síðasta ári, flestir vegna bakveiki, vöðvabólgu, kvefs og umgangspesta. Um 78% starfsfólks voru einhvern tímann á síðasta ári fjarverandi frá vinnu vegna eigin veikinda í að meðaltali 3,9 skipti. Þeir sem voru yngri en 25 ára, voru mun meira fjarverandi en þeir sem eldri eru.

Áberandi var að aðeins rúmlega helmingur stofnana höfðu á að skipa öryggistrúnaðarmönnum og öryggisvörðum en þeim er í sameiningu ætlað að fylgjast með því að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustaðnum sé fullnægjandi. Tímasettar kröfur voru gerðar um að slíkir aðilar yrðu skipaðir.

Skýrsla hefur verið skrifuð um niðurstöður rannsóknarinnar og eftirlitsátaksins og er hún aðgengileg á heimasíðu Vinnueftirlitsins. Þar má einnig finna svör við einstökum spurningum í spurningalistakönnuninni.