Fréttir

Samstarf Vinnueftirlitsins og Háskóla Íslands um Rannsóknastofu í vinnuvernd

6.5.2004

Vinnueftirlitið og Háskóli Íslands hafa gert með sér samstarfssamning um Rannsóknastofu í vinnuvernd. Markmið samningsins er að efla rannsóknir og fræðslu á sviði vinnuverndar en fram til þessa hafa rannsóknir af þessu tagi fyrst og fremst verið stundaðar í rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins. Rannsóknir á sviði vinnuverndar lúta að líðan og heilsu fólks í vinnu. Vinnutengd heilsa er stór hluti lýðheilsu og skiptir því sköpum fyrir heilbrigði þjóðarinnar.

Sjálfstæðar rannsóknastofnanir í vinnuvernd hafa verið starfræktar um langt skeið á öllum Norðurlöndunum, í öðrum Evrópulöndum, Bandaríkjunum og víðar en vegna smæðar íslensks samfélags hefur þótt hagkvæmt að rannsóknir á þessu sviði væru ekki í sjálfstæðri stofnun heldur hjá Vinnueftirlitinu. Með samstarfssamningnum við Háskóla Íslands er ætlunin að efla rannsóknirnar og að virkja fræðimenn á sem flestum sviðum. Flest fræðasvið háskóla fjalla að einhverju leyti um viðfangsefni sem lúta að vinnuvernd í fortíð, nútíð og framtíð. Rannsóknirnar eru til þess fallnar að tengja atvinnulífið og fræðilega umræðu. Niðurstöðum rannsóknanna er ætlað að leiða til aðgerða sem bæta líðan vinnandi fólks, draga úr atvinnutengdum sjúkdómum og slysum og þar með vanlíðan starfsfólks, veikindafjarvistum og framleiðslutapi fyrirtækja og þjóðar.
Rannsóknastofa í vinnuvernd hefur það hlutverk að eiga frumkvæði að og sinna þverfaglegum rannsóknum á sviði vinnuverndar í samstarfi rannsókna- og heilbrigðisdeildar Vinnueftirlitsins og ýmissa deilda Háskóla Íslands. Þar verður einnig sinnt rannsóknatengdum þjónustuverkefnum á sviði vinnuverndar. Rannsóknastofan mun stuðla að því að efla tengsl rannsókna og kennslu. Leitað verður samstarfs við deildir Háskóla Íslands um að auka þátt kennslu í vinnuvernd í tengslum við þær fræðigreinar, sem kenndar eru í Háskólanum, en flestir ef ekki allir háskólanemar fara að námi loknu út á vinnumarkaðinn. Þekking á gildi vinnuverndar er því nauðsynleg. Á rannsóknastofunni verður nemum í rannsóknanámi veitt aðstaða til rannsóknastarfa eftir því sem unnt er.
Heilsuhraustir, áhugasamir og hæfir starfsmenn eru grundvallarforsenda félagslegrar og efnahagslegrar velmegunar í þjóðfélaginu. Rannsóknir og fræðsla á sviði vinnuverndar er fjárfesting til framtíðar, bæði þegar litið er til einstaklingsins, fyrirtækja og þjóðfélagsins alls.
Rannsóknastofa í vinnuvernd heyrir annars vegar undir rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins og hins vegar Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Hún mun hafa aðsetur hjá Vinnueftirlitinu, Bíldshöfða 16, 110 Reykjavík.

Samstarfssamningurinn var undirritaður fimmtudaginn 6. maí kl. 14.00 í fundarsal Norræna hússins.