Fréttir

Rúmfatalagerinn og Aðföng innkalla rjómasprautur

1.3.2012

Vinnueftirlitinu bárust nýlega upplýsingar um óhöpp og slys sem orðið hafa í tengslum við ákveðna gerð af  rjómasprautum. Umræddar rjómasprautur hafa meðal annars verið seldar undir tegundarheitinu EXCELLENT HOUSWARE hér á landi og Equinox í Evrópu. Lokin á rjómasprautunum eru úr plasti og hafa þau í vissum tilvikum sprungið af. Hefur þetta helst gerst þegar verið var að setja þrýsting á sprauturnar. Af þessu getur skapast veruleg hætta og eru dæmi um alvarleg slys af þessum sökum.
Í framhaldinu kannaði Vinnueftirlitið hvort búnaður þessi væri til dreifingar hér á landi og reyndist svo vera. Var haft samband við þá tvo aðila sem vitað er að hafi selt búnaðinn og tóku þeir sjálfir þá ákvörðun að innkalla rjómasprautur af þeirri tegund sem um ræðir.
Þeir aðilar sem vitað er að hafi selt umræddar rjómasprautur eru Aðföng og Rúmfatalagerinn og eru hér að neðan tenglar inn á innköllunarauglýsingar fyrirtækjanna. Kemur þar fram að skila skal búnaðinum til þeirra verslunar sem hún var keypt hjá.
Vinnueftirlitið vill ítreka að þeir sem hafa umræddar rjómasprautur undir höndum hætti notkun þeirra þegar í stað þar sem um hættulega vöru er um að ræða. Jafnframt vill Vinnueftirlitið benda á að fara skal eftir leiðbeiningum framleiðanda þegar verið er að fylla á og setja þrýsting á hylkin og ítrekar að hylkin skulu ekki fyllt meira af vökva eða gasi en kemur fram í leiðbeiningum framleiðanda.  

Heimasíður innflytjanda:
Aðföng   http://adfong.is/
Rúmfatalagerinn http://rumfatalagerinn.is/
    
rjomasprautur_2
 
 
Ýmsar myndir af viðlíka búnaði.