Fréttir

Réttindi þeirra sem stjórna vinnuvélum

15.4.2004

Í fréttum Ríkisútvarpsins í morgun, 14. apríl, kom sú fullyrðing m.a. fram að fleiri hundruð stjórnenda vinnuvéla á virkjanasvæðinu við Kárahnjúka væru án vinnuvélaréttinda.  Þessi fullyrðing á ekki við rök að styðjast.

 

Vinnueftirlitinu er ekki kunnugt um nema fjóra vinnuvélstjóra á svæðinu sem enn hafa ekki lokið verklega prófinu en bæði vaktavinna og válynd veður hafa tafið framkvæmd prófsins.

 

Vinnueftirlitinu er kunnugt um að 98 erlendir starfsmenn starfi eða hafi starfað við stjórn vinuvéla þar sem krafist er vinnuvélaréttinda. Af þessum hópi er 71 starfsmaður frá Portúgal en hinir 27 koma frá Kína. Vinnueftirlitið hefur metið menntun og starfsreynslu allra þessara starfsmanna á sviði vinnuvéla. Þeir hafa einnig fengið fræðslu um íslenskar reglur um vinnuvélar og hinar fjölbreytilegu vinnuaðstæður á Íslandi, m.a.. um hálku, snjókomu, kulda, bleytu o.s.frv. Allir nema áðurnefndir fjórir starfsmenn hafa tekið verklegt próf og fengið staðfestingu á vinnuvélaréttindum sínum.

 

Til að koma í veg fyrir misskilning skal tekið fram að ekki er krafist vinnuvélaréttinda til að stjórna svokölluðum búkollum. Hér á landi eru búkollurnar ekki flokkaðar sem vinnuvélar. Hér er um að ræða stór tæki sem notuð eru til að flytja jarðveg; þau líkjast mjög vörubifreiðum en eru yfirleitt mun stærri. Þessi tæki eru skráð hjá Umferðarstofu sem námubifreiðar. Stjórnendur þeirra  þurfa að hafa sömu ökuréttindi og krafist er til að stjórna vörubifreiðum. 

 

Nánari upplýsingar gefur Haukur Sölvason, deildarstjóri vinnuvéladeildar Vinnueftirlitsins, sími 550 4685 eða 891 7626.