Fréttir

Reglur 764/2001 um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum líffræðilegra skaðvalda

5.3.2009

Reglur 764/2001 um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum líffræðilegra skaðvalda á vinnustöðum

III. KAFLI
Heilsuvernd

13. gr.
Heilsuvernd starfsmanna
1. Þegar áhættumatið skv. 4. gr. (4. gr. fjallar um áhættumat vegna líffræðilegra skaðvalda) gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna sé hætta búin, skal atvinnurekandi sjá til þess að umræddir starfsmenn njóti heilsuverndar, sbr. XI. kafla laga nr. 46/1980 og gildandi reglur um læknisskoðun og heilsuvernd.

2. Heilsuvernd skv. 1. mgr. skal meðal annars fela í sér að starfsmaður geti gengist undir læknisskoðun áður en hann hefur störf, þar sem hætta er á mengun og reglulega eftir það. Enn fremur skal vera unnt að koma við aðhlynningu eða úrbótum á hollustuháttum á vinnustað án ástæðulauss dráttar.

3. Veita skal þeim starfsmönnum, sem ekki eru þegar ónæmir gegn þeim líffræðilega skaðvaldi sem þeir verða fyrir eða kunna að verða fyrir mengun frá, viðeigandi bólusetningu, sbr. VII. viðauka. Hafi starfsmaður orðið fyrir sýkingu eða veikindum sem grunur leikur á að rekja megi til mengunar frá líffræðilegum skaðvaldi, skal sá læknir sem ber ábyrgð á heilsuvernd starfsmanna gefa öðrum starfsmönnum, sem unnið hafa við sömu aðstæður, kost á að gangast undir læknisskoðun. Þegar svo ber undir skal endurmeta áhættumatið skv. 4. gr.

4. Sá er annast heilsuvernd starfsmanna skal varðveita skrá um sjúkrasögur starfsmanna í 10 ár, frá því að mengunarástandi var síðast aflétt samkvæmt gildandi lögum og reglum, sbr. þó III. viðauka. (Í III viðauka er listi yfir flokkaða líffræðilega skaðvalda sem vitað er að smita menn.) Þegar um er að ræða tilvik skv. 3. mgr. 11. gr. (Í 3. mgr. 11. gr. er talin upp ýmiss konar mengun sem getur valdið tilteknu smiti, sjá þar) skal sá er annast heilsuvernd starfsmanna varðveita skrá um sjúkrasögur starfsmanna í 40 ár frá því að mengunarástandi var síðast aflétt. Fara skal með slíkar upplýsingar sem trúnaðarmál.

5. Sá er annast heilsuvernd starfsmanna skal gera tillögu um hvaða verndar- eða forvarnarráðstafanir skuli gera með tilliti til einstakra starfsmanna, sjá IV. viðauka.

6. Atvinnurekandi skal upplýsa og leiðbeina starfsmönnum um hvers konar heilsuvernd þeir eiga kost á eftir að mengunarástandi hefur verið aflétt.

7. Starfsmenn skulu í samræmi við lög og gildandi reglur hafa aðgang að niðurstöðum heilsuverndar er varðar persónu þeirra. Einnig er hlutaðeigandi starfsmönnum eða atvinnurekanda heimilt að krefjast þess að niðurstöður heilsuverndar verði endurskoðaðar.

8. Atvinnurekandi skal tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um öll sjúkdómstilfelli eða dauðsföll sem álitin eru afleiðing vegna mengunar af líffræðilegum skaðvöldum á vinnustöðum.

9. Þegar starfsemi fyrirtækisins eða stofnunar er lögð niður skal afhenda Vinnueftirliti ríkisins eintak af skránni skv. 4. mgr. og skal það varðveita hana í samræmi við ákvæði þetta.

III. VIÐAUKI
Leiðbeiningar um framkvæmd heilsuverndar starfsmanna. (5. mgr. 13. gr.)

1. Þeir sem annast skulu heilsuvernd starfsmanna sem geta orðið fyrir mengun af líffræðilegum skaðvöldum skulu þekkja aðbúnað og aðstæður hvers starfsmanns sem þannig er ástatt um.

2. Heilsuvernd starfsmanna skal fara fram samkvæmt meginreglum og starfsaðferðum atvinnusjúkdómafræðinnar, og skal það fela í sér að minnsta kosti eftirfarandi: 
     ? að haldin sé skrá um heilsufarssögu og starfsferil starfsmanns, 
     ? að fram fari persónulegt mat á heilsufari starfsmanns, 
     ? að fram fari, eftir því sem við á, líffræðilegt eftirlit og greining á einkennum sem koma snemma fram og unnt er að bæta úr.
Heimilt er að kveða á um frekari rannsóknir á einstökum starfsmönnum sem lúta heilsuvernd í ljósi aukinnar þekkingar á sviði atvinnusjúkdómafræði.

VII. VIÐAUKI
Ráðlagðar starfsreglur um bólusetningu. (3. mgr. 13. gr.)

1. Þegar niðurstaða áhættumats skv. 4. gr. gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna er hætta búin vegna mengunar frá líffræðilegum skaðvöldum sem virkt bóluefni er til gegn skal atvinnurekandi veita umræddum starfsmönnum kost á bólusetningu.

2. Bólusetning skal fara fram í samræmi við lög eða landsvenjur. Enn fremur skal upplýsa starfsmenn um kosti og ókosti bólusetningar og þess að láta það ógert.

3. Bólusetning skal vera starfsmanninum að kostnaðarlausu.

4. Heimilt er að gefa út vottorð um bólusetningu fyrir hlutaðeigandi starfsmann og Vinnueftirlit ríkisins, óski þau eftir því.