Fréttir

Reglugerð um varnir gegn skaðlegum áhrifum titrings á heilbrigði og öryggi starfsmanna 922/2006

4.3.2009

Reglugerð um varnir gegn skaðlegum áhrifum titrings á heilbrigði og öryggi starfsmanna 922/2006

4.gr.
Viðmiðunarmörk og viðbragðsmörk fyrir álag vegna vélræns titrings.
Viðmiðunarmörk og viðbragðsmörk fyrir álag vegna handar- og handleggstitrings skulu vera eftirfarandi: 
     a. dagleg viðmiðunarmörk fyrir átta klukkustunda viðmiðunartímabil skulu vera 5 m/s², 
     b. dagleg viðbragðsmörk fyrir átta klukkustunda viðmiðunartímabil skulu vera 2,5 m/s². 
     Álag á starfsmenn vegna handar- og handleggstitrings skal metið eða mælt skv. 1. tölul. A-hluta viðauka reglugerðar þessarar.
Viðmiðunarmörk og viðbragðsmörk fyrir álag vegna titrings í öllum líkamanum skulu vera eftirfarandi: 
     a. dagleg viðmiðunarmörk fyrir átta klukkustunda viðmiðunartímabil skulu vera 1,15 m/s², 
     b. dagleg viðbragðsmörk fyrir átta klukkustunda viðmiðunartímabil skulu vera 0,5 m/s². 
     Álag á starfsmenn vegna titrings í öllum líkamanum skal metið eða mælt skv. 1. tölul. B-hluta viðauka reglugerðar þessarar.
Álag vegna vélræns titrings má aldrei fara yfir viðmiðunarmörk og viðbragðsmörk samkvæmt ákvæði þessu, sbr. þó 5. gr. reglugerðar þessarar.
 

5. gr.
Undanþága frá viðmiðunarmörkum og viðbragðsmörkum
fyrir álag vegna vélræns titrings.
Vinnueftirliti ríkisins er heimilt að veita tímabundna undanþágu frá viðmiðunarmörkum fyrir álag vegna vélræns titrings skv. 1. og 3. mgr. 4. gr. reglugerðar þessarar í tilvikum þegar álag á starfsmann vegna vélræns titrings er að jafnaði undir tilgreindum mörkum en er þó breytilegt þannig að það getur einstöku sinnum farið yfir mörkin.
Skilyrði fyrir undanþágu skv. 1. mgr. er að meðalgildi álags vegna vélræns titrings sé undir tilgreindum mörkum skv. 1. og 3. mgr. 4. gr. reglugerðar þessarar á hverjum 40 klst. og að unnt sé að sýna fram á að áhætta af álagi vegna vélræns titrings á starfsmanninn verði ekki umfram þá áhættu sem rekja má til álags vegna vélræns titrings sem er við mörkin skv. 1. og 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Enn fremur skal atvinnurekandi tryggja að áhættunni sé haldið í lágmarki og að hlutaðeigandi starfsmaður gangist undir heilsufarsskoðun skv. III. kafla reglugerðar þessarar.
Vinnueftirlit ríkisins skal halda skrá yfir þær undanþágur sem veittar eru samkvæmt ákvæði þessu og ástæður þeirra.

III. KAFLI
Heilsufarsskoðanir

10. gr.
Framkvæmd heilsufarsskoðana.
Þegar áhættumat skv 6. gr. reglugerðar þessarar gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna sé hætta búin skal atvinnurekandi sjá til þess að umræddum starfsmönnum sé boðin heilsufarsskoðun, sbr. 67. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum. Á það einkum við þegar: 
     a. unnt er að tengja álag vegna vélræns titrings við greinanleg sjúkdómseinkenni eða skaðleg áhrif á heilsu viðkomandi starfsmanns, 
     b. líkur eru á að sjúkdómseinkennin eða hin skaðlegu áhrif megi rekja til sérstakra vinnuaðstæðna starfsmannsins, og 
     c. fyrir hendi er viðurkennd tækni til að greina sjúkdómseinkenni eða skaðleg áhrif á heilsu. 
     Starfsmenn sem verða fyrir álagi vegna vélræns titrings yfir viðmiðunarmörkum skv. 4. gr. reglugerðar þessarar, þrátt fyrir ráðstafanir sem atvinnurekandi gerir til að koma í veg fyrir slíkt álag, skulu eiga rétt á viðeigandi heilsufarsskoðunum.
Heilsufarsskoðunum er meðal annars ætlað að greina fljótt hvers konar sjúkdómseinkenni eða skaðleg áhrif á heilsu starfsmanna sem tengjast álagi vegna vélræns titrings svo koma megi í veg fyrir þau. Á þetta sérstaklega við þegar nýta á niðurstöður heilsufarsskoðana við skipulagningu fyrirbyggjandi ráðstafana á vinnustað. 
      Heilsufarsskoðanir samkvæmt ákvæði þessu skulu vera í höndum heilbrigðisstarfsmanna. 
     Sá sem annast heilsufarsskoðanir starfsmanna skal varðveita skrá um heilsufar hvers starfsmanns sem gengst undir heilsufarsskoðun samkvæmt ákvæði þessu og skal skráin uppfærð við hverja skoðun. Í skrá um heilsufar skulu teknar saman niðurstöður úr heilsufarsskoðun. Um frágang og meðferð heilsufarsskrár fer samkvæmt gildandi reglugerð um sjúkraskrár og skýrslugerð varðandi heilbrigðismál. Hlutaðeigandi starfsmaður skal hafa aðgang að skrá um heilsufar sitt óski hann eftir því. 
     Atvinnurekandi skal bera kostnað vegna heilsufarsskoðana starfsmanna samkvæmt ákvæði þessu.

11. gr.
Niðurstöður heilsufarsskoðunar.
Leiði heilsufarsskoðun í ljós sjúkdóm eða skaðleg áhrif á heilsu starfsmanns sem að mati þess er annast skoðunina má rekja til álags vegna vélræns titrings við vinnu skal sá sem annast skoðunina: 
     a. greina viðkomandi starfsmanni frá niðurstöðum sem varða hann sjálfan. Skal starfsmaðurinn einkum fá upplýsingar og leiðbeiningar um hvers konar heilsufarsskoðanir hann skuli gangast undir eftir að álagi vegna vélræns titrings lýkur. 
     b. gefa hlutaðeigandi atvinnurekanda upplýsingar um niðurstöðu heilsufarsskoðunarinnar, að teknu tilliti til þagnarskyldu heilbrigðisstarfsmanna. Komi upp tilvik skv. 1. mgr. skal atvinnurekandi: 
     a. endurskoða áhættumat, sbr. 6. gr. reglugerðar þessarar, 
     b. endurskoða áætlun um heilsuvernd, þar á meðal áætlun um forvarnir, sbr. 7. gr.
reglugerðar þessarar, 
     c. taka til greina ráðleggingar viðurkenndra þjónustuaðila, sbr. 66. gr. a laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, þar á meðal þess sem annaðist umrædda heilsufarsskoðun, eða Vinnueftirlits ríkisins við framkvæmd hvers konar nauðsynlegra ráðstafana til að útiloka eða draga úr áhættu, sbr. 7. gr. reglugerðar þessarar, þar á meðal hvort unnt sé að fá viðkomandi starfsmanni annað starf þar sem ekki er hætta á frekara álagi vegna vélræns titrings, og 
     d. sjá til þess að heilsufarsskoðanir fari áfram fram og að aðrir starfsmenn sem hafa starfað við sambærilegar aðstæður gangist undir heilsufarsskoðun.
Sá sem annast heilsufarsskoðun skal tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um niðurstöðuna þegar um er að ræða atvinnusjúkdóm, atvinnutengdan sjúkdóm eða ef viðkomandi starfsmaður hefur orðið fyrir öðrum skaðlegum áhrifum vegna starfa sinna, sbr. 3. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.