Fréttir

Reglugerð um þungaðar konur á vinnustöðum

1.5.2001

Ný reglugerð sem varðar þungaðar konur á vinnustöðum Ný reglugerð 

Ný lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof tóku gildi 1. janúar sl. Jafnframt var endurútgefin með nokkrum breytingum reglugerð frá 1998 um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur, sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti. Nýja reglugerðin er nr. 931/2000 og er hægt að fá hana í prentuðu formi hjá Vinnueftirlitinu en einnig á heimasíðu þess: ww.vinnueftirlit.is 

Markmið 

Markmiðið með reglugerðinni er að bæta öryggi og heilbrigði þungaðra kvenna á vinnustað. Í þessu sambandi ber atvinnurekandi mikla ábyrgð þar sem hann þarf að láta fara fram áhættumat þegar störfin geta haft í för með sér hættu fyrir konuna. 

Hvaða konur falla undir reglugerðina? 

Þær konur, sem eru starfsmenn og eru þungaðar, hafa alið barn eða hafa barn á brjósti verða að tilkynna atvinnurekandanum um þetta ásigkomulag sitt. Að öðrum kosti heyra þær ekki undir reglugerðina og er slík tilkynning því forsenda þess að þær geti notið þeirra réttinda sem reglugerðin veitir. 

Áhættumat 

Þegar störf geta haft í för með sér hættu vegna mengunar, vinnuaðferða eða vinnu-skilyrða, á atvinnurekandinn að meta eðli hættunnar fyrir þær konur sem falla undir reglugerðina. Hann á því að gera ? eða láta gera ? áhættumat. Leiði matið í ljós að hætta geti verið á ferðum ber atvinnurekanda að grípa til ráðstafana til að útiloka hættuna. Hann á einnig að kynna niðurstöður áhættumats fyrir konunni strax og þær liggja fyrir. En til hvaða ráðstafana á atvinnurekandinn að grípa ef hætta er fyrir hendi? 

a) Fyrsta skref er að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma konunnar. 

b) Ef það er ekki hægt á að fela konunni önnur verkefni. 

c) Ef það er heldur ekki hægt skal veita henni leyfi frá störfum. 

Ekki má skylda þungaða konu til að vinna að næturlagi á meðgöngutímanum og jafnframt í allt að sex mánuði eftir barnsburð - ef það er nauðsynlegt af öryggis- og heilbrigðis-ástæðum og konan hefur staðfest það með læknisvottorði. Konan, líkt og atvinnurekandi, getur leitað umsagnar Vinnueftirlitsins áður en ákvörðun er tekin um breytingu á vinnuskilyrðum, vinnutíma eða verkefnum. 

Greiðslur í fæðingarorlofi 

Þunguð kona, sem þarf að fá leyfi frá störfum af öryggis- og heilbrigðisástæðum, á rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eins og hún væri í fæðingarorlofi án þess að það skerði fæðingarorlofið eftir fæðingu. Skv. lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof eru greidd mánaðarlega úr Fæðingarorlofssjóði 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Breyting á vinnutíma, vinnuskilyrðum eða verkefnum hefur ekki áhrif á launakjör til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi, sbr. áðurnefnd lög. 

Reglugerðin - Leiðbeiningar um áhættumat - Veggspjald 

Vinnueftirlitið hefur gefið út Leiðbeiningar um áhættumat í starfsumhverfi þungaðra kvenna, sem skulu vera atvinnurekendum til leiðbeiningar þegar áhættumat er gert. Leiðbeiningarnar fást hjá Vinnueftirlitinu en textinn er einnig á heimasíðunni. Auk þess hefur Vinnueftirlitið gefið út veggspjald þar sem vakin er athygli á helstu atriðum í reglugerðinni og er hægt að fá það endurgjaldslaust hjá stofnuninni. Þungaðar konur og atvinnurekendur eru eindregið hvött til að kynna sér reglugerðina en hana er hægt að fá á heimasíðu Vinnueftirlitsins: www.vinnueftirlit.is