Fréttir

Reglugerð 553/2004 um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum efna á vinnustöðum

5.3.2009

Reglugerð 553/2004 um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum efna á vinnustöðum

III. KAFLI.
Heilsuvernd

12. gr.
Heilsuvernd starfsmanna
Þegar áhættumatið skv. 4. gr. (4. gr. fjallar um áhættumat) gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna sé hætta búin skal atvinnurekandi sjá til þess að umræddir starfsmenn njóti heilsuverndar, sbr. XI. kafla laga, nr. 46/1980 með síðari breytingum, og gildandi reglur um heilsufarsskoðun og heilsuvernd.
Heilsuvernd skv. 1. mgr. (Í 1. gr. segir að reglugerðin gildi um hvers konar starfsemi þar sem starfsmenn verða fyrir eða eiga á hættu að verða fyrir mengun frá efnum og vinnuverndarlögin gilda um, sbr. þó strangari ákvæði í sérlögum og sérreglum um einstaka efni.) skal meðal annars fela í sér að starfsmaður geti gengist undir heilsufarsskoðun þegar mengun frá varasömu efni, sem starfsmaður verður fyrir, veldur sjúkdómi eða öðrum neikvæðum áhrifum á heilsu hans, tiltekinn sjúkdómur getur komið upp við þau vinnuskilyrði sem starfsmaður vinnur við og að aðferðin sem notuð er við heilsufarsskoðunina sé starfsmanni hættulítil. 
     Starfsmenn er vinna með varasöm efni sem hafa bindandi líffræðileg mengunarmörk, sbr. I. viðauka, skulu gangast undir heilsufarsskoðun áður en þeir hefja störf og reglulega eftir það. Atvinnurekandi skal upplýsa starfsmanninn um þessa skyldu áður en hann hefur störf. 
     Sá er annast heilsuvernd starfsmanna skal halda skrá um sjúkrasögu viðkomandi starfsmanna sem gangast undir heilsufarsskoðanir auk þeirrar mengunar sem þeir hafa orðið fyrir. Í skránni skal enn fremur koma fram niðurstaða heilsuverndar samkvæmt ákvæði þessu og hvernig henni hefur verið háttað. Fara skal með slíkar upplýsingar sem trúnaðarmál. 
     Starfsmenn skulu í samræmi við lög og gildandi reglur hafa aðgang að niðurstöðu heilsuverndar er varðar persónu þeirra. 
     Sá er annast heilsuvernd starfsmanna skal afhenda Vinnueftirliti ríkisins afrit af skrá skv. 4. mgr. óski það eftir því. Fara skal með slíkar skrár sem trúnaðarmál. 
     Atvinnurekandi skal tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um öll sjúkdómstilfelli eða dauðsföll sem álitin eru afleiðing vegna mengunar af varasömum efnum á vinnustöðum. 
     Þegar starfsemi fyrirtækis eða stofnunar er lögð niður skal afhenda Vinnueftirliti ríkisins eintak af skránni skv. 4. mgr. og skal það varðveita hana í samræmi við ákvæði þetta.?

13. gr.
Niðurstöður heilsuverndar
Gefi niðurstaða heilsuverndar til kynna að starfsmaður þjáist af sjúkdómi eða merki eru um önnur neikvæð áhrif á heilsu hans, sem sá er annast heilsuverndina eða annar hæfur sérfræðingur telur vera afleiðingu mengunar frá varasömu efni á vinnustað eða farið hefur verið yfir bindandi líffræðileg mengunarmörk, skal sá er annast heilsuverndina tilkynna starfsmanninum um niðurstöðuna. Þar á meðal skal upplýsa og leiðbeina starfsmanninum um hvers konar heilsuvernd hann eigi kost á eftir að dregið hefur verið úr mengun eins og nauðsyn krefur. 
     Þegar um er að ræða tilvik skv. 1. mgr. skal atvinnurekandi endurskoða áhættumatið skv. 4. gr., forvarnir skv. 5. gr.(5. gr. fjallar um forvarnir) og þær ráðstafanir sem hann hefur gripið til skv. 7. gr. (7. grein fjallar um ráðstafanir vegna mengunar) reglugerðar þessarar. Enn fremur skal atvinnurekandi leita ráðleggingar hjá sérfræðingi í atvinnusjúkdómum eða öðrum hæfum aðila og gera viðeigandi úrbætur til að ráða bót á ástandinu.

I. VIÐAUKI
Bindandi líffræðileg mengunarmörk og heilsuvernd

1. Blý og jónasambönd þess
1.1. Atvinnurekandi skal sjá til þess að starfsmaður sem vinnur með blý fari í heilsufarsskoðun áður en starfið hefst. Heilsufarsskoðun skal framkvæmd þriðja hvert ár á meðan blýmengun varir. Mælist blýinnihald í blóði starfsmanns það hátt að það leiði til tilfærslu í starfi, sbr. lið 1.2 viðauka þessa skal viðkomandi gangast undir heilsufarsskoðun. Sama á við mælist mengun yfir hálfum gildandi mengunarmörkum sbr. reglur um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun. 
     Bindandi líffræðileg mengunarmörk fyrir blý í blóði eru 1,0 µmól/l blóð hjá konum undir 50 ára að aldri og 2,0 µmól/l blóð hjá öðru starfsfólki. 
     Atvinnurekandi skal sjá til þess að blóðsýni sé tekið til að mæla blýinnihald þess áður en starfsmaður hefur störf eða í síðasta lagi 15 dögum eftir starfsbyrjun. Eftir það skal mæla blýinnihald blóðs á þriggja mánaða fresti. 
     Hafi niðurstöður mælinga síðustu þrjú skiptin þegar mælt var, sýnt að blýmagn í blóði er undir 0,8 µmól/l blóð hjá konum undir 50 ára aldri eða undir 1,5 µmól/l blóð hjá öðru starfsfólki er aðeins þörf á einni mælingu á ári að því tilskildu að vinnuaðstæður séu óbreyttar. 
     Komi í ljós við heilsufarsskoðun eða reglulega mælingu á blýi í blóði að blýinnihald í blóði er jafnt eða meira en 0,8 µmól/l hjá konum undir 50 ára aldri eða 1,5 µmól/l blóð hjá öðru starfsfólki skal atvinnurekandi kanna ástæður þess og grípa til ráðstafana til að draga úr upptöku blýs hjá viðkomandi starfsfólki. 
     Sýnataka og greiningar á blýinnihaldi í blóði starfsmanna skal gerð af aðilum sem hafa til þess nægilega kunnáttu. 
     Vinnueftirlit ríkisins getur krafist frekari heilsufarsskoðana og mælinga á blýi í blóði en fjallað er um í þessum lið. Atvinnurekandi skal veita þeim er framkvæmir heilsufarsskoðunina allar nauðsynlegar upplýsingar vegna hennar. Sá sem framkvæmir heilsufarsskoðun skal tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um niðurstöður hennar svo og viðkomandi starfsmanni. 
     Atvinnurekandi skal senda niðurstöður mengunarmælinga og greininga á styrk blýs í blóði til Vinnueftirlits ríkisins. Einnig skal hann kynna niðurstöðurnar fyrir öryggistrúnaðarmönnum og öryggisvörðum og í samráði við þá leggja mat á niðurstöðurnar. Fari starfsmaður fram á það skal atvinnurekandi láta honum í té niðurstöður mengunarmælinga og greininga á blýi í blóði er varða hann sérstaklega. Atvinnurekanda eða öðrum sem þekkja til niðurstaðna blóðrannsókna er óheimilt að greina óviðkomandi frá þeim nema með samþykki viðkomandi starfsmanna.

1.2. Óheimilt er að láta ungmenni yngra en 18 ára vinna þar sem hætta er á blýmengun. Bann þetta gildir þó ekki um vinnu sem er hluti af námi ungmennis og vinnu í faginu að námi loknu. 
     Komi í ljós við heilsufarsskoðun eða reglubundna mælingu á blýi í blóði að blýinnihald í blóði er jafnt eða meira en 1,5 µmól/l blóð hjá konum undir 50 ára aldri eða 2,3 µmól/l blóð hjá öðru starfsfólki skulu viðkomandi flutt í starf þar sem ekki er til staðar blýmengun. Ekki má láta viðkomandi vinna í blýmengun fyrr en blýinnihald í blóði er minna en 1,0 µmól/l hjá konum undir 50 ára aldri og 2,0 µmól/l blóð hjá öðru starfsfólki. 
     Komi í ljós í þrjú skipti í röð við reglubundna mælingu á þriggja mánaða fresti á blýi í blóði að blýinnihald í blóði er á bilinu 1,0 og 1,5 µmól/l blóð hjá konum undir 50 ára aldri eða á bilinu 2,0 og 2,3 µmól/l blóð hjá öðru starfsfólki skulu viðkomandi flutt í starf þar sem ekki er til staðar blýmengun. Ekki má láta viðkomandi vinna í blýmengun fyrr en blýinnihald í blóði er minna en 1,0 µmól/l blóð hjá konum undir 50 ára aldri og 2,0 µmól/l blóð hjá öðru starfsfólki. 
     Konur sem vinna í blýmengun skulu tilkynna atvinnurekanda um þungun sína án ástæðulausrar tafar þegar sú vitneskja liggur fyrir. Óheimilt er að láta konur vinna í blýmengun sem tilkynnt hafa atvinnurekanda að þær séu barnshafandi.

     1.3 Aðferðir til að mæla blý í blóði og líffræðilega vísbendingu um blýáhrif. 
     Blýmagn í blóði:  Frumeindagleypin litrófsmæling 
     ALAU:    DAVIS-aðferðin (1) eða jafngild aðferð 
     ZPP:     Blóðflúormæling (2) eða jafngild aðferð 
     ALAD:    Evrópsk staðalaðferð (3) eða jafngild aðferð

     (1)  Davis J. R. og Andelman S. L. ?Urinary delta-aminolevulinic acid levels in lead poisoning. A modified method for the rapid determination of urinary delta-     aminolevulinic acid using disposable ion-exchange chromatographic columns?. Arch. Environ. Health 15, 53-9 (1967). 
     (2) Blumberg W. E., Eisinger J., Lamola A. A. og Zuckerman D. M. ?Zinc protoporphyrin level 
     in blood determination by a portable hematofluometer. A screening device for lead poisoning?. J. Lab. Clin. Med. 89, 712-723 (1977). 
      (3) a) Tilskipun ráðsins 77/312/EBE frá 29. mars 1977 um líffræðilega skimun íbúa vegna blýáhrifa. Stjtíð. EB nr. L 105, 28. 4. 1977, bls. 10 (III. viðauki). 
     b) A. Berlin og K. H. Schaller ?European Standardized Method for the determination of delta-aminolevulinic acid dehydratase activity in blood?. 3. Klin. Chem. Klin. Biochem. 12, 389-390 (1974).

Reglur nr. 698/1995 um blý og blýsölt féllu f.o.m árinu 2004 undir Reglugerð um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum efna á vinnustöðum nr. 553/2004: