Fréttir

Rannsóknir á heilsufari og líðan kennara

16.1.2006

Rannsóknir á heilsufari og líðan kennara

Flestar rannsóknir á heilsufari og líðan kennara beinast að streitu eða kulnun í starfi. Því hefur verið haldið fram að um þriðjungur kennara þjáist af mikilli streitu og/eða kulnun. Vinnuálag er ekki endilega mesti bölvaldurinn. Hitt skipti meiru hvernig hverjum og einum tekst að ráða fram úr þeim vanda sem hann ratar í.  Niðurstöður ýmissa rannsókna benda til þess að langvarandi streita leiði til líkamlegra einkenna og kulnunar þegar fram í sækir.

Sænska rannsóknastofnunin í vinnuvernd hefur nýverið gefið út vinnuverndarhandbók fyrir alla í skólanum, bæði nemendur og kennara. Þar er frá því sagt að 47% aðspurðra kennara hafi sagt að þeir séu alltaf eða oftast stressaðir í starfi. Konur voru stressaðri en karlkyns kennarar. (Kindenberg, 2005).

Nýlega kom út önnur bók í Svíþjóð um starfsaðstæður kennara og leiðir til að ráða fram úr þeim margvíslega vanda sem að þeim steðjar í skólastarfinu (Wennberg B. og Norberg S, 2004). Titill bókarinnar er Vald, tilfinningar og forysta í bekknum Hvernig tilfinningagreind getur skapað vinnufrið í skólanum.  Tilfinningagreind skilgreina höfundarnir sem getu til að gera sér grein fyrir tilfinningum sínum. Glíman við streitu, vanmátt og blandaðar tilfinningar er rauði þráðurinn í bókinni og samskipti við foreldra nemenda geta verið flókin.

Anna Þóra Baldursdóttir kannaði sérstaklega kulnun í starfi grunnskólakennara og leiðbeinenda í grunnskólum í meistaraprófsverkefni sínu til M.Ed.- gráðu í uppeldis- og kennslufræði við Kennaraháskóla Íslands (Anna Þóra Baldursdóttir, 2000) og hjúkrunarfræðingarnir Bára Þorgrímsdóttir og Guðrún Erla Gunnarsdóttir skrifuðu lokaverkefni til B.Sc. prófs í hjúkrunarfræði vorið 2001 um líðan og heilsufar kennara (Bára Þorgrímsdóttir og Guðrún Erla Gunnarsdóttir, 2001). Tilgangur ritgerðar þeirra var að gera fræðilega úttekt á rannsóknum á heilsufari kennara. Flestar rannsóknirnar beinast að streitu.

Heilsufar, líðan og vinnuumhverfi flugfreyja, hjúkrunarfræðinga og kennara á Íslandi var metið með spurningalistakönnun árið 2005. Rannsóknin var gerð í samvinnu Rannsóknastofnunar í hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands og Rannsókna- og heilbrigðisdeildar Vinnueftirlitsins. Helstu niðurstöður voru birtar sérstaklega í skýrslum um hvern starfshóp og eru þær allar aðgengilegar t.d. á heimasíðu Vinnueftirlitsins, www.vinnueftirlit.is (Herdís Sveinsdóttir, Hólmfríður K. Gunnarsdóttir og Hildur Friðriksdóttir, 2003).

Heimildir:
Anna Þóra Baldursdóttir (2000). - Hvernig líður kennurum? Könnun á kulnun í starfi grunnskólakennara og leiðbeinenda í grunnskólum. Óbirt meistaraprófsritgerð til M.Ed. gráðu í uppeldis- og kennslufræði við Kennaraháskóla Íslands.
Bára Þorgrímsdóttir og Guðrún Erla Gunnarsdóttir (2001). -  Um líðan og heilsufar kennara. Háskóli Íslands, hjúkrunarfræðideild, lokaverkefni til BS-prófs í hjúkrunarfræði.
Herdís Sveinsdóttir, Hólmfríður K. Gunnarsdóttir og Hildur Friðriksdóttir. (2003). -  Heilsufar, líðan og vinnuumhverfi kennara. (Skýrsla). Háskóli Íslands, Rannsóknastofnun í hjúkrunarfræði og Vinnueftirlitið.
http://www.vinnueftirlit.is
Kindenberg, U. (2005). - Skolans arbetsmiljöhandbok. Stockholm: Arbetslivsinstitutet og Liber.
Wennberg, B. og Norberg, S. (2004). - Makt, känslor och ledarskap i klassrummet. Hur EQ kan ge arbetsro i skolan. Natur och kultur,
http://www.nok.se

6.01.06.